Lögðum hart að okkur til að vera tilbúnar

Megan Dunnigan skoraði sigurmark FH.
Megan Dunnigan skoraði sigurmark FH. mbl.is/Golli

„Tilfinningin er mjög góð, það var gott að ná inn marki svona seint og ná sigri. Við spiluðum ekki eins vel og við getum en við getum ekki kvartað yfir sigrinum, hvað þá þegar við skorum svona seint," sagði Megan Dunnigan, hetja FH eftir 1:0 sigur á útivelli gegn FH í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Dunnigan skoraði sigurmarkið á lokamínútunni. 

„Þetta var verðskuldaður sigur gegn líkamlega sterku liði Fylkis, þær gáfu okkur góðan leik, en liðið sem vildi þetta meira og náði að klára færin vann leikinn."

FH tapaði fjórum leikjum í röð fyrir EM hléið, en liðið hefur nú unnið báða leiki sína eftir að deildin fór af stað á ný. 

„Við æfðum vel og fórum til Ítalíu í æfingaferð í viku. Við lögðum hart að okkur til að vera tilbúnar í síðari hluta tímabilsins. Við ætluðum að koma til baka og vinna leiki í byrjun síðari umferðarinnar og við höfum gert það vel hingað til."

FH hefur haldið hreinu í báðum leikjum sínum eftir hléið. 

„Að halda hreinu er mikilvægt. Við höfum verið að glíma við mikið af meiðslum í sumar og loksins erum við með fullskipað lið og það hvetur okkur áfram að ná að halda hreinu og vinna tvo leiki."

FH er um miðja deild og segist Dunnigan sátt við það, þó hún vilji gera enn betur. 

„Okkur líður vel með stöðuna. Við viljum halda okkur í deildinni og við erum að gera vel. Við viljum halda áfram að bæta okkur og vinna eins marga leiki og við getum í lok tímabils og komast hærra í töflunni," sagði hún að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert