Skrýtið að hafa ekki Kára við hlið sér

Ragnar Sigurðsson fyrir leik Íslands gegn Úkraínu í kvöld.
Ragnar Sigurðsson fyrir leik Íslands gegn Úkraínu í kvöld. mbl.is/Golli

„Þetta gerist ekki betra en þetta. Við héldum hreinu og náðum í þau þrjú stig sem við ætluðum okkur. Við vorum þéttir og öruggir í okkar aðgerðum. Við lokuðum á þeirra sóknaraðgerðir og unnum okkur svo inn í leikinn eftir því sem leið á,“ sagði Ragnar Sigurðsson sem átti góðan leik þegar íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu lagði Úkraínu að velli, 2:0, í undankeppni HM 2018 í kvöld.

„Mér fannst þeir ekki skapa nein opin marktækifæri þrátt fyrir að þeir hafi verið mikið með boltann í upphafi leiksins og á köflum í leiknum. Það var svo mikill léttir að sjá Gylfa Þór [Sigurðsson] skora fyrra markið. Þetta var svo aldrei spurning eftir að Gylfi Þór skoraði seinna markið. Við sigldum þessu örugglega heim,“ sagði Ragnar í samtali við mbl.is. 

Ragnar lék í kvöld með Sverri Inga Ingason við hliðina á sér í vörn íslenska liðsins í stað Kára Árnasonar. Ragnar og Kári hafa leikið lengi saman í hjarta varnarinnar hjá íslenska liðinu og samvinnu þeirra með eindæmum góð, en það sama má segja um samstarf Ragnars og Sverris Inga í kvöld. 

„Það var mjög gott að spila með Sverri sem er góður varnarmaður. Sverrir hefur beðið þolinmóður eftir að fá tækifæri með liðinu og hann nýtti tækifærið svo sannarlega vel í kvöld. Það var svolítið skrýtið að hafa ekki Kára við hliðina á sér, en við Sverrir smullum vel saman í þessum leik,“ sagði Ragnar um nýja samstarfsfélagann í varnarlínu íslenska liðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert