Kannski verður maður sáttur á morgun

Ægir Jarl Jónasson kemur Fjölni í 4:3 í leiknum í …
Ægir Jarl Jónasson kemur Fjölni í 4:3 í leiknum í dag. mbl.is/Alfons

„Kannski verður maður sáttur við eitt stig á morgun en í augnablikinu finnst mér afar slæmt að við skyldum ekki ná í þrjú stig," sagði sænski sóknarmaðurinn Linus Olsson sem skoraði tvö marka Fjölnis í 4:4 jafntefli gegn Víkingi í Ólafsvík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag.

Fjölnir vann upp þriggja marka forskot Víkings og komst í 4:3 en fékk á sig jöfnunarmark undir lokin.

„Mér fannst við spila vel í fyrri hálfleik þó við lentum þremur mörkum undir. Mér leið eins og við værum góðir en þeir skoruðu hinsvegar mjög ódýr mörk og það var ekki nógu gott. Við náðum hinsvegar að svara fyrir okkur og það var mikilvægt að skora tvö mörk strax í fyrri hálfleiknum," sagði Olsson við mbl.is eftir leikinn.

„Við trúðum því alltaf að við myndum koma til baka og í hálfleik töluðum við um að við ætluðum að vinna leikinn. Við komum mjög vel inn í seinni hálfleikinn og náðum 4:3 forystu en því miður jöfnuðu þeir aftur undir lokin. Það var of auðvelt mark," sagði Olsson sem skoraði fyrsta mark Fjölnis og jafnaði síðan metin í 3:3.

„Við þurfum að berjast áfram, þetta er hörð fallbarátta, en vonandi erum við komnir með gott sjálfstraust eftir að hafa fengið fjögur stig í síðustu tveimur leikjum. Ef við spilum áfram svona eins og við gerðum í dag, án þess að fá á okkur svona einföld mörk, er ég viss um að við vinnum næstu leiki," sagði Olsson.

Hann kom til Fjölnis í júlí frá danska liðinu Nyköbing og skoraði strax í fyrsta leik en þetta voru hans fyrstu mörk eftir það. Svíinn er ánægður í Grafarvogi.

„Þetta hefur verið frábært. Ísland er flott land en það hefur tekið tíma að venjast fótboltanum í þessari deild. Það gengur betur og betur og vonandi get ég sýnt mitt besta í síðustu umferðunum," sagði Linus Olsson.

Linus Olsson í leik gegn ÍBV.
Linus Olsson í leik gegn ÍBV. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert