Geri allt til að verða klár

Aron Einar Gunnarsson á æfingu í Antalya í dag.
Aron Einar Gunnarsson á æfingu í Antalya í dag. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

„Það kom smá bakslag í þetta í gær. Ég var svolítið stífur eftir ferðalagið en ég mun setja meiri kraft í æfingarnar í dag og á morgun og sjá hvernig þetta verður. Eftir það kemur í ljós hvort ég verði klár í að spila á föstudaginn eða ekki,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson, við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Antalya í Tyrklandi í dag.

Aron Einar hefur verið að glíma við meiðsli í rassvöðvanum og hefur ekki spilað síðustu tvo leiki með Cardiff í ensku B-deildinni. Þegar Aron Einar var svo valinn í landsliðshópinn fyrir leikina gegn Tyrkjum og Kosóvum fór það ekki vel í knattspyrnustjórann Neil Warnock. Hann vildi ekki að Aron færi með landsliðinu til Tyrklands.

„Ég mun reyna að gera allt sem ég get að vera klár fyrir föstudaginn. Þessi þrýstingur frá Cardiff hefur engin áhrif. Ég átti gott spjall við Warnock og sjúkrateymið og þeir treysta mér alveg eins og ég þeim. Ef ég er klár þá er ég klár en ef ekki þá verð ég ekki með.

Ég fer ekki að taka neina áhættu og eins og einn maður sagði; lífið er ekki einn fótboltaleikur. Ég stíg til hliðar ef ég verð ekki heill heilsu og treysti mér ekki til að spila heilan leik. Það er betra að hafa mann sem er hundrað prósent klár heldur en mann sem er ekki í standi til þess að spila,“ sagði Aron Einar.

Höfum reynslu að því að spila svona úrslitaleiki

Aron eins og allir landsliðsmennirnir eru undir það búnir að spila mjög erfiðan leik á móti Tyrkjum sem eru komnir með blóð á tennurnar eftir sigurinn gegn Króötum í síðasta mánuði.

„Við höfum spilað hér áður og njótum góðs að því að vita hverjar aðstæðurnar verða. En aðalmálið er hugarfarið og hvernig við mætum til leiks. Við ætlum að mæta þeim af fullum krafti eins og þeir koma til með að gera á móti okkur.

Við ætlum að reyna að fá áhorfendurna með okkur í lið. Það eru mikil einstaklingsgæði í liði Tyrkjanna og við vitum að við þurfum að ná toppleik til að vinna þá. Það eru fjögur virkilega sterk lið í riðlinum og lítið sem skilur á milli. En við erum reynslu að því að spila svona úrslitaleiki. Við höfum gert það undanfarin ár og þessi leikur er ekkert nýr fyrir okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert