Ágúst ráðinn þjálfari Breiðabliks

Ágúst Þór Gylfason
Ágúst Þór Gylfason mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágúst Þór Gylfason hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu en þetta var staðfest rétt í þessu á vef stuðningsmanna félagsins.

Ágúst, sem er 46 ára gamall og lék á sínum tíma með Val, Fram, KR,  norska liðinu Brann og svissneska liðinu Solothurn ásamt því að leika 6 landsleiki fyrir Íslands hönd, hefur starfað hjá Fjölni undanfarin tíu ár.

Fyrst eitt ár sem leikmaður, síðan þrjú ár sem aðstoðarþjálfari og undanfarin sex ár sem aðalþjálfari liðsins en Fjölnir vann 1. deildina undir hans stjórn árið 2013 og náði sínum besta árangri í sögunni í fyrra þegar liðið hafnaði í fjórða sæti.

Ágúst tekur við af Milosi Milojevic sem tók við þjálfun Blika í lok maí en hætti störfum á dögunum, að tímabilinu loknu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert