Ensku liðin kynnt - Southampton

Southampton er komið aftur í hóp þeirra bestu í ensku knattspyrnunni eftir sjö ára fjarveru en liðið hafnaði í öðru sæti B-deildarinnar á síðasta tímabili. Þar með hafði Southampton farið upp um tvær deildir á tveimur árum en liðið lék í C-deildinni í tvö ár eftir að hafa lent í greiðslustöðvun vorið 2009 og fallið þangað í kjölfarið vegna stigamissis.

Þegar Southampton féll úr úrvalsdeildinni vorið 2005 hafði það leikið samfleytt í 27 ár í efstu deild og var nálægt því að verða enskur meistari árið 1984.

Mbl.is skoðar á næstu dögum liðin 20 sem leika í ensku úrvalsdeildinni í vetur og hvernig þau eru skipuð eftir að lokað var fyrir félagaskiptin um mánaðamótin.

Southampton glímdi við geysilega fjárhagsörðugleika sem ógnuðu tilvist félagsins. Mikil uppbygging hefur hinsvegar átt sér stað síðustu árin og hún hefur skilað liðinu uppí úrvalsdeildina á ný, mun hraðar en flestir reiknuðu með. Svissneskur kaupsýslumaður, Markus Liebherr, keypti félagið árið 2009 þegar það var í greiðslustöðvun. Hann lést ári síðar en eignarhaldsfélag hans, undir forystu Ítalans Nicola Cortese, á félagið áfram.

Southampton er sennilega það lið sem flestir spá að falli aftur úr deildinni í vor. Markmiðin eru að sjálfsögðu allt önnur og þar á bænum er stefnt að því að tryggja félaginu áframhaldandi veru í deildinni í vetur og setja í framhaldinu stefnuna á að komast í efri hluta hennar.

Nigel Adkins er knattspyrnustjóri Southampton. Hann er 47 ára gamall Englendingur sem lék á fjórða hundrað leiki með Tranmere, Wigan og velska liðinu Bangor City, og hafði stýrt liði Scunthorpe í fjögur ár áður en hann tók við Southampton í september 2010. Hann hefur farið með liðið upp um tvær deildir á tveimur árum frá þeim tíma.

Southampton fékk til sín átta nýja leikmenn áður en lokað var fyrir félagaskiptin, enda ljóst að styrkja þyrfti liðið umtalsvert fyrir baráttuna í vetur. Af þeim eru mestar vonir bundnar við Gastón Ramírez, 21 árs gamlan úrúgvæskan landsliðmann en hann er kantmaður og var keyptur fyrir 12 milljónir punda, félagsmet, af Bologna á Ítalíu. Hann á eftir að klæðast búningi félagsins, enda var gengið frá kaupunum á honum rétt fyrir helgina.

Nýir menn sem hafa farið beint í liðið eru Nathaniel Clyne, sem þykir einn efnilegasti hægri  bakvörður Englendinga, miðjumaðurinn Steven Davis og framherjinn Jay Rodriguez. Sóknarmaðurinn Emmanuel Mayuka, 21 árs Sambíumaður, er búinn að spila einn leik en nýr japanskur miðjumaður, Maya Yoshida, á eftir að fá tækifæri.

Southampton á vafalítið erfiða fallbaráttu fyrir höndum. Liðið hefur þó sýnt góða takta gegn báðum Manchester-liðunum í fyrstu umferðunum og tapað 2:3 fyrir báðum eftir að hafa komist 2:1 yfir í báðum leikjum. Rickie Lambert hefur sýnt að hann er framherji sem getur látið að sér kveða í deildinni en þessi þrítugi leikmaður skoraði í báðum umræddum leikjum. Ósigur gegn Wigan á heimavelli, 0:2, endurspeglaði hinsvegar vandræðin sem blasa við liðinu. Slíka mótherja þarf liðið að sigra á St. Mary's leikvanginum.

Auk þeirra sem áður eru nefndir eru Adam Lallana, James Puncheon og markvörðurinn Kelvin Davis áhugaverðir leikmenn í liði Southampton, sem og hollenski miðvörðurinn Jos Hooiveld.

Þessir eru komnir:
Nathaniel Clyne frá Crystal Palace
Cody Cropper frá Ipswich
Steven Davis frá Rangers
Paulo Gazzaniga frá Gillingham
Emmanuel Mayuka frá Young Boys Bern
Gastón Ramírez frá Bologna
Jay Rodriguez frá Burnley
Maya Yoshida frá Venlo

Þessir eru farnir:
Lee Barnard til Bournemouth (lán)
Bartosz Bialkowski til Notts County
Harlee Dean til Brentford
Ryan Doble til Shrewsbury
Tommy Forecast til Gillingham (lán)
Jonathan Forte til Crawley
Dean Hammond til Brighton (lán)
Dan Harding til Nottingham Forest
Lee Holmes til Preston
Billy Sharp til Nottingham Forest (lán)

Leikmenn Southampton 2012-2013.

Rickie Lambert hefur skorað 2 marka Southampton í deildinni og þeir Morgan Schneiderlin, sem er 23 ára franskur miðjumaður, og Steven Davis sitt markið hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert