Ensku liðin kynnt - Aston Villa

Aston Villa hafnaði í sextánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á síðasta tímabili og var aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti þegar upp var staðið. Liðið vann aðeins 7 leiki af 38 í deildinni en gerði 17 jafntefli og náði ekki að vinna neinn af síðustu tíu leikjum sínum.

Aston Villa er eitt af fimm enskum félögum sem hafa orðið Evrópumeistarar. Villa var eitt stofnliða úrvalsdeildarinnar 1992 og hefur aldrei fallið þaðan. Félagið hefur verið samfleytt í efstu deild frá 1988.

Jóhannes Karl Guðjónsson er eini Íslendingurinn sem hefur spilað með Aston Villa en hann var í láni hjá félaginu frá Real Betis á Spáni frá janúar 2003 til vors og skoraði tvö mörk í ellefu leikjum í úrvalsdeildinni.

Önnur Íslandstenging Aston Villa er sú að fyrir um 30 árum lék liðið í íslenskum Henson-búningum og Halldór Einarsson hjá Henson var lengi í góðum tengslum við félagið á þeim árum.

Paul Lambert er knattspyrnustjóri Aston Villa. Hann er 43 ára gamall Skoti og tók við liðinu í sumar eftir að hafa stýrt Norwich með góðum árangri undanfarin þrjú ár. Lambert, sem lék 40 landsleiki fyrir Skota frá 1995 til 2003, spilaði með St. Mirren, Motherwell, Dortmund, Celtic og Livingston og stjórnaði síðan liðum Livingston, Wycombe, Colchester og Norwich.

Bandaríski auðkýfingurinn Randy Lerner keypti Aston Villa árið 2006 og hefur sjálfur verið stjórnarformaður þess frá þeim tíma.

Aston Villa keypti átta leikmenn í sumar, þrjá þeirra frá hollenskum liðum og einn frá Belgíu. Hollenski landsliðsmiðvörðurinn Ron Vlaar er þekktastur þeirra en ástralski kantmaðurinn Brett Holman og marokkóski miðjumaðurinn Karim El Ahmadi hafa líka farið beint í liðið í byrjun tímabilsins ásamt varnarmanninum Matthew Lowton.

Aðrir helstu lykilmenn Villa eru ensku ensku landsliðsframherjarnir Darren Bent og Gabriel Agbonlahor, miðjumennirnir Charles N'Zogbia og Barry Bannan og markvörðurinn reyndi Shay Given sem er búinn að semja um að spila með liðinu framyfir fertugt.

Aston Villa byrjaði tímabilið ekki vel og tapaði 0:1 fyrir West Ham á útivelli og 1:3 fyrir Everton á heimavelli en náði síðan 1:1 jafntefli gegn Newcastle á útivelli. Villa hefur því ekki unnið í síðustu 13 leikjum sínum í deildinni og vann síðast Fulham 10. mars.

Villa gæti hæglega lent í vandræðum í neðri hluta deildarinnar í vetur en liðið hefur sætt talsverðri gagnrýni frá stuðningsmönnum og það er pressa á því að gera betur en það hefur sýnt síðustu misserin. Fyrsta verkefni hjá Paul Lambert er að reyna að koma í veg fyrir að liðið fari beint í erfiða fallbaráttu.

Þessir eru komnir:
Karim El Ahmadi frá Feyenoord
Joe Bennett frá Middlesbrough
Christian Benteke frá Genk
Jordan Bowery frá Chesterfield
Brett Holman frá AZ Alkmaar
Matthew Lowton frá Sheffield United
Ron Vlaar  frá Feyenoord
Ashley Westwood frá Crewe

Þessir eru farnir:
James Collins til West Ham
Carlos Cuellar til Sunderland
Nathan Delfouneso til Blackpool (lán)
Emile Heskey, óvíst
Connor Taylor til Walsall

Leikmenn Aston Villa 2012-2013.

Karim El Hamadi og Ciaran Clark hafa skorað mörkin tvö sem Villa hefur gert í deildinni til þessa í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert