Ensku liðin kynnt - Liverpool

Liverpool endaði í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð sem var versti árangur liðsins í deildinni í átján ár. Sigur í deildabikarnum var ljósið í myrkrinu, og tryggði liðinu sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar, en Liverpool tapaði svo í úrslitum enska bikarsins fyrir Chelsea.

Liverpool hefur misst af Meistaradeildarsæti síðustu þrjú ár eftir að hafa átt fast sæti í keppninni árin á undan og unnið hana árið 2005 undir stjórn Rafa Benítez.

Þrír Íslendingar hafa verið hjá Liverpool án þess þó að spila fyrir aðallið félagsins. Keflvíkingurinn Haukur Ingi Guðnason var hjá liðinu árin 1997-2000 og Fylkismaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson árin 2009-2011. FH-ingurinn Kristján Gauti Emilsson kom svo til Liverpool 2010 en sneri heim í FH í sumar. Gylfa Þór Sigurðssyni bauðst í sumar að semja við félagið en hann hélt að lokum til Tottenham.

Miður góður árangurinn á síðustu leiktíð varð til þess að Kenny Dalglish var látinn fara eftir að hafa stýrt Liverpool í eitt og hálft ár. Við starfi hans tók hinn lítt reyndi Brendan Rodgers sem sló í gegn með Swansea á síðustu leiktíð, sinni fyrstu í úrvalsdeildinni. Þessi 39 ára gamli Norður-Íri, sem hefur einnig stýrt Watford og Reading, lét Swansea spila stórskemmtilegan „Barcelona-bolta“ þar sem liðið reyndi að halda knettinum hvar sem var á vellinum og hver sem andstæðingurinn var. Nú þarf Rodgers að koma sinni hugmyndafræði inn í Liverpool-liðið og það gæti tekið tíma.

Bandarísku viðskiptamennirnir George Gillett og Tom Hicks eignuðust Liverpool snemma árs 2007. Þeir félagar nutu lítilla vinsælda meðal stuðningsmanna liðsins og svo fór að lokum að félagið var keypt af öðrum Bandaríkjamönnum, John W. Henry og Tom Werner, í gegnum Fenway Sports Group sem á einnig bandaríska hafnaboltaliðið Boston Red Sox. Meiri ánægja ríkir með eignarhald þeirra.

Þó að Rodgers hafi ekki lánast að fá Gylfa Þór Sigurðsson fékk hann annan lærisvein sinn frá Swansea, Wales-verjann Joe Allen, í sumar og honum er ætlað að vera lykilhlekkur í spilinu á miðjunni. Rodgers fékk einnig Tyrkjann Nuri Sahin á miðjuna, að láni frá Spánarmeisturum Real Madrid, en Sahin lék frábærlega hjá Dortmund áður en hann fór til Real þar sem hann fékk lítið að sýna sig á síðustu leiktíð.

Þá er ítalski sóknarmaðurinn Fabio Borini kominn og hefur spilað alla þrjá leikina til þessa í deildinni, og marokkóski kantmaðurinn Oussama Assaidi kom frá Heerenveen. Rodgers ákvað einnig að hafa Joe Cole í leikmannahópnum en Cole var á láni hjá Lille í Frakklandi á síðustu leiktíð.

Fjöldi misgóðra leikmanna hefur horfið á braut. Craig Bellamy þótti standa sig vel á síðustu leiktíð en hann fór til Cardiff, Dirk Kuyt er farinn til Fenerbache og Charlie Adam fór til Stoke. Þá var framherjinn fokdýri Andy Carroll lánaður til West Ham án þess að Liverpool næði í annan sóknarmann í staðinn eins og Rodgers hafði reiknað með en hann hugðist fá Clint Dempsey frá Fulham eða Daniel Sturridge lánaðan frá Chelsea.

Liverpool getur teflt fram mjög öflugu byrjunarliði en breiddin í liðinu mætti vera meiri. Pepe Reina markvörður hefur aðeins dalað en er einn sá besti í úrvalsdeildinni. Þegar Daniel Agger er heill er aftasta varnarlínan vel skipuð, og á miðjunni er nú mikið úrval leikmanna. Steven Gerrard, Sahin og Allen mynda ansi álitlegt þríeyki á miðjunni en þar saknar Liverpool enn Brasilíumannsins Lucas Leiva. Leiva tók þátt í undirbúningstímabilinu eftir langvinn meiðsli en meiddist á ný, í læri, og verður frá keppni næstu 2-3 mánuðina. Jordan Henderson, Cole og Jonjo Shelvey eru svo til taks.

Í sókninni er úrvalið hins vegar minna eins og áður er getið og Liverpool þarf því að reiða sig enn frekar á Úrúgvæjann Luis Suárez sem var markahæstur á síðustu leiktíð með aðeins 11 mörk. Kantmaðurinn ungi Raheem Sterling hefur stokkið fram á sjónarsviðið í byrjun leiktíðar og komst í enska landsliðshópinn sem mætir Úkraínu í kvöld, en á köntunum eru einnig vísir til að leika þeir Borini, Assaidi og Stewart Downing sem hefur margt að sanna eftir vonbrigði síðustu leiktíðar.

Liverpool steinlá 0:3 gegn WBA á útivelli í fyrstu umferð deildarinnar í ágúst, gerði síðan 2:2 jafntefli heima gegn meisturum Manchester City og tapaði 0:2 heima fyrir Arsenal í þriðju umferðinni.

Þessir eru komnir:
Joe Allen frá Swansea
Oussama Assaidi frá Heerenveen
Fabio Borini frá Roma
Nuri Sahin frá Real Madrid (lán)

Þessir eru farnir:
Charlie Adam til Stoke
David Amoo til Preston
Alberto Aquilani til Fiorentina
Fabio Aurelio til Gremio
Craig Bellamy til Cardiff
Andy Carroll til West Ham (lán)
Stephen Darby til Bradford City
Nathan Eccleston til Blackpool
Dirk Kuyt til Fenerbahce
Henoc Mukendi til Northampton (lán)
Joe Rafferty til Rochdale
Maxi Rodríguez til Newell's Old Boys
Toni Silva til Barnsley
Jay Spearing til Bolton (lán)

Leikmenn Liverpool 2012-2013.

Martin Skrtel og Luis Suárez hafa skorað þau tvö mörk sem Liverpool hefur gert í þremur fyrstu umferðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert