Leedsarar áhugasamir um Russel Crowe

Russell Crowe.
Russell Crowe. AFP

Hópur stuðningsmanna enska knattspyrnufélagsins Leeds United er áhugasamur um fyrirætlanir stórleikarans Russels Crowes um að kaupa félagið. Áhuginn er þó ekki vegna glæstrar fortíðar kappans í Hollywood. Crowe er nefnilega stór hluthafi í rúbbíliðinu South Sydney Rabbitohs frá Ástralíu og hefur átt stóran þátt í velgengni liðsins á undanförnum árum.

„Hann er stuðningsmaður Leeds og það er frábært en það sem hann hefur gert fyrir Rabbitohs er meginástæða þess að við erum áhugasamir,“ sagði Dylan Thwaites, forkólfur stuðningsmannahóps Leeds, sem hefur verið að reyna að kaupa 25% hlut í félaginu af eiganda liðsins, Massimo Cellino.

Frá því að óskarsverðlaunahafinn Crowe keypti 50% hlut í félaginu hefur verulega fjölgað í stuðningsmannaklúbbi félagsins eða úr 3 þúsund í 297 þúsund. Þrátt fyrir ummæli stjórnarformanns Leeds um að félagið væri ekki til sölu hefur stuðningsmannahópurinn ekki gefist upp.

„Russel kemur til Bretlands í næsta mánuði og þá munum við reyna að funda með honum,“ sagði Thwaites.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert