Reynir að fá White til að snúast hugur

Declan Rice og Ben White eftir leik með Arsenal.
Declan Rice og Ben White eftir leik með Arsenal. AFP/Paul Ellis

Declan Rice, miðjumaður Arsenal, kveðst ætla að reyna að fá liðsfélaga sinn Ben White til þess að endurskoða ákvörðun sína um að gefa ekki kost á sér í enska landsliðið í knattspyrnu.

Gareth Southgate landsliðsþjálfari greindi frá því á fréttamannafundi að White hafi óskað eftir því að vera ekki valinn í komandi verkefni Englands.

Arsenal-mennirnir munu reyna

Rice ætlar að freista þess að fá White til að snúast hugur ásamt enskum liðsfélögum sínum hjá Arsenal.

„Þegar ég sný aftur get ég rætt við hann og fengið að vita hvað hann er að hugsa. Mér þætti frábært ef hann myndi snúa aftur. Ég held að Bukayo [Saka] sé sammála mér og Aaron Ramsdale.

Ég held að við munum allir þrýsta á hann þegar við komum til baka. Vonandi snýst honum hugur,“ sagði Rice á fréttamannafundi í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert