Hamilton tekur út refsingu í Spa

Lewis Hamilton mætir til blaðamannafundar í Spa-Francorchamps brautinni í Belgíu …
Lewis Hamilton mætir til blaðamannafundar í Spa-Francorchamps brautinni í Belgíu í dag. AFP

Mercedesliðið staðfesti í dag, að Lewis Hamilton þurfi að taka út refsingu fyrir ofnotkun véla um helgina í belgíska kappakstrinum. Það getur þýtt að hann hefji keppni aftastur á  rásmarki.

Hamilton hefur notað vélar- og aflrásarhluti umfram heimildir og er ástæðan ítrekaðar bilanir framan af keppnistíðinni. 

Þannig hefur hann brúkað fimm hverfilblásara, jafnmörg orkuendurheimtingarkerfi (MGU-H), þrjár vélarblokkir, orkugeymslur og rafeindastýringar. Samkvæmt reglum fær Hamilton 10 sæta afturfærslu við sjötta eintakið af tilteknum íhlut og fimm sæti til viðbótar við næsta sjötta partinn.

„Það er nokkuð víst að hann þurfi að hefja keppni aftastur eða mjög nærri því, nákvæmar getum við ekki sagt um þetta núna,“ sagði talsmaður Mercedes í Spa Francorchamps í dag.

Liðsfélagi Hamiltons, Nico Rosberg, hefur ekki notað neina íhluti umfram þrjá það sem af er ári. Inn í mótið fer Hamilton með 19 stiga forskot á Rosberg í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, eftir að hafa um skeið verið 43 stigum á eftir. Hefur hann unnið sex mót af síðustu sjö en búast má við að um helgina verði leikurinn auðveldari fyrir Rosberg.

Liðsmaður Mercedes pússar keppnishjálm Lewis Hamilton í Spa-Francorchamps en þar …
Liðsmaður Mercedes pússar keppnishjálm Lewis Hamilton í Spa-Francorchamps en þar fer belgíski kappaksturinn fram um helgina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert