Beckham afar ósáttur við bresk blöð

David Beckham á Sardiniu í dag.
David Beckham á Sardiniu í dag. AP

David Beckham, fyrirliði enska knattspyrnulandsliðsins, fór í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC ófögrum orðum um bresk blöð og þá meðferð sem hann og fjölskylda hans hafa fengið að undanförnu á síðum þeirra. Beckham er nú í æfingabúðum með enska landsliðinu á ítölsku eynni Sardiníu en liðið býr sig nú undir úrslit Evrópumótsins í knattspyrnu.

Beckham sagðist hafa um tíma íhugað að hætta að veita ákveðnum fréttastofum viðtöl eftir fjölmiðlafárið sem hlaust út af fullyrðingum fyrrum aðstoðarkonu Beckhams um að þau hefðu átt í ástarsambandi á Spáni sl. haust. Beckham er giftur og á tvö börn.

„Ég hef gert gert tveimur blöðum ljóst, að það sé til algerrar skammar hvernig þau hafi farið með mig og fjölskyldu mína. Ég er, þegar öllu er á botninn hvolft, góður strákur og ástríkur eiginmaður og faðir," sagði Beckham í viðtalinu. „Ég geri mér grein fyrir því, að sem fyrirliði enska liðsins beri mér að tala við aðdáendur mína og þess vegna geri ég það."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert