Suárez áfrýjar banninu til CAS

Luis Suárez.
Luis Suárez. AFP

Alejandro Balbi, lögfræðingur Luis Suárez, segir að skjólstæðingur sinn muni áfrýja úrskurði FIFA um fjögurra mánaða keppnisbann til Alþjóða-íþróttadómstólsins, CAS. Þetta kom fram hjá honum í dag, í kjölfarið á því að gert var opinbert að Barcelona hefði keypt Suárez af Liverpool og samið við hann til fimm ára.

Suárez hafði áfrýjað til FIFA en þeirri áfrýjun var hafnað. Auk þess að vera í banni í fjóra mánuði má hann ekki spila næstu níu landsleiki Úrúgvæ, ekki æfa með félagsliði og ekki einu sinni láta sjá sig sem áhorfandi á knattspyrnuleik á meðan bannið gildir.

„Við vonumst til þess að þeir hrindi þessum úrskurði sem er algjörlega út í hött. Réttindi knattspyrnumannsins til að stunda sína vinnu eru hunsuð og því ætti knattspyrnuhreyfingin að hafa áhyggjur af. Níu leikja bannið er þungt, en að hann skuli ekki fá að horfa á fótboltaleik, æfa eða mæta í vinnuna, þá erum við að tala um allt annað og meira," sagði Balbi við spænsku útvarpsstöðina Cope í dadg.

„Luis viðurkenndi mistök sín en við sjáum að FIFA er alveg sama um afsökunarbeiðnir. Það mun taka sinn tíma að fá réttlætinu fullnægt, en það mun gerast. Við vissum að FIFA myndi halda banninu til streitu. Við stoppum ekki, við förum með málið fyrir Alþjóða-íþróttadómstólinn og fetum þær lagalegu slóðir sem okkur eru færar," sagði Balbi ennfremur.

Með því að áfrýja til CAS getur Suárez jafnframt farið fram á að banninu verði frestað þar til úrskurður dómstólsins liggur fyrir. CAS gæti hafnað því, en ef það yrði samþykkt gæti Suárez spilað með Barcelona frá og með fyrstu umferðinni á Spáni í hausst.

Hinsvegar gæti áfrýjunin þýtt að Suárez yrði í raun lengur í banni en ella, því ef hann þyrfti síðan í framhaldinu að taka út bannið, næði það yfir fjóra mánuði af keppnistímabili en ekki tvo mánuði af undirbúningstímabili og tvo af keppnistímabili eins og það gerir nú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert