Reus sektaður um 84 milljónir

Marco Reus.
Marco Reus. AFP

Þýski knattspyrnumaðurinn Marco Reus sem leikur með Borussia Dortmund hefur verið sektaður um 540 þúsund evrur, jafngildi 84 milljóna króna.

Að því er fram kemur í þýska blaðinu Bild er sektin tilkomin vegna þess að Reus hefur ekið án ökuleyfis í nokkur ár.

Reus, sem er afar eftirsóttur leikmaður, var stöðvaður fyrir of hraðan akstur þann 18. mars. Hann framvísaði ekki ökuskírteini sínu og við skoðun lögreglunnar kom í ljós að hann var ekki með ökuleyfi en leikmaðurinn hefur fimm sinnum verið tekinn fyrir ofan hraðan akstur frá því í september 2011 fram í mars 2014. Í hvert skipti var Reus sektaður án þess að kannað væri með ökuleyfi hans.

„Þetta er afar heimskulegt af mér og ég læri af þessu. Ég hef lært mína lexíu og þetta kemur ekki fyrir aftur,“ segir Reus í viðtali við Bild en að sögn blaðsins er þetta hæsta sekt sem hefur verið greidd fyrir fyrir svona athæfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert