Guðmundur og Matthías lögðu báðir upp

Rosenborg vann öruggan sigur með Guðmund og Matthías í eldlínunni.
Rosenborg vann öruggan sigur með Guðmund og Matthías í eldlínunni. Ljósmynd/rbk.no

Íslendingalið voru í eldlínunni í þriðju umferð norsku bikarkeppninnar í knattspyrnu.

Guðmundur Þórarinsson og Matthías Vilhjálmsson lögðu báðir upp mark þegar Rosenborg sigraði Nardo, 4:1. Guðmundur spilaði allan leikinn og lagði upp þriðja markið, en Matthías annað markið. Hann var einnig í byrjunarliðinu en fór af velli eftir rúmlega klukkutíma leik. Hólmar Örn Eyjólfsson var ekki með.

Ingvar Jónsson var varamarkvörður Sandefjord þegar liðið sló lærisveina Rúnars Kristinssonar hjá Lilleström úr leik, 1:0. Árni Vilhjálmsson var í byrjunarliði Lilleström en fór af velli á 69. mínútu.

Þá vann Sandnes Ulf sigur á Start í Íslendingaslag, 3:1. Steinþór Þorsteinsson kom inn sem varamaður á 62. mínútu hjá Sandnes en hjá Start spilaði Guðmundur Kristjánsson allan leikinn.

Aron Sigurðarson kom snemma við sögu hjá Tromsö sem vann Tromsdalen, 3:2. Aron byrjaði á bekknum en kom inn strax á sextándu mínútu. Eiður Smári Guðjohnsen var svo fjarri góðu gamni vegna meiðsla hjá Molde sem tapaði fyrir Stjördals-Blink, 3:2, og er úr leik. Það er Viking sömuleiðis eftir 2:1 tap fyrir Vidar, en Björn Daníel Sverrisson var ekki með Viking í leiknum.

Þá er hálfleikur hjá Elíasi Má Ómarssyni og félögum í Vålerenga sem eru að spila við KFUM Osló, en staðan er markalaus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert