Birkir skoraði í endurkomu Hammarby

Birkir Már Sævarsson.
Birkir Már Sævarsson. mbl.is/Golli

Landsliðsmaðurinn Birkir Már Sævarsson skoraði eitt mark í 3:3 jafntefli Hammarby við Varbergs í sænska bikarnum í knattspyrnu í dag.

Birkir minnkaði muninn í 2:1 á 12. mínútu en Hammarby lenti 2:0 undir eftir 10 mínútur. 

Ögmundur Kristinsson stóð í marki Hammarby og Arnór Smárason lék einnig allan leikinn ásamt Birki Má.

Leikið er í riðlum til að byrja með í sænska bikarnum þar sem efsta lið hvers riðils kemst í átta liða úrslitin. Eftir tvo leiki er Hammarby með fjögur stig í 2. sæti í riðli 7. Östersund hefur 6 stig í 1. sæti riðilsins en þessi lið eiga eftir að mætast í riðlinum.

Þá kom Elías Már Ómarsson inn í lið Gautaborgar á 67. mínútu er liðið slátraði Arameisk-Syrianska 6:0.

Gautaborg hefur sex stig í riðli 3 ásamt Sirius en liðin mætast í lokaleik riðilsins í algjörum úrslitaleik um sæti í átta liða úrslitum.

Birkir Már og Arnór sjást hér að neðan fagna marki Birkis í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert