Alfreð og félagar sluppu við fall

Alfreð Finnbogason, leikmaður Augsburg, í baráttu við Ermin Bicakcic, leikmann …
Alfreð Finnbogason, leikmaður Augsburg, í baráttu við Ermin Bicakcic, leikmann Hoffenheim, í leik liðanna í dag. AFP

Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji í knattspyrnu, og félagar hans hjá Augsburg tryggðu sæti sitt í þýsku efstu deildinni í knattspyrnu karla með því að gera markalaust jafntefli gegn Hoffenheim í lokaumferð deildarinnar í dag.

Alfreð var í byrjunarliði Augsburg í leiknum, en var síðan tekinn af velli undir lok leiksins. Augsburg hafnaði í 13. sæti deildarinnar og var einu stigi á undan Wolfsburg sem fer í umspil um sæti í efstu deild.

Bayern München varð þýskur meistari í ár, RB Leipzig, Borussia Dortmund og Hoffenheim tryggðu sér sæti í Meistaradeild Evrópu og Köln og Hertha Berlin fara í Evrópudeildina. Það er síðan hlutskipti Ingolstadt og Darmstadt að falla úr efstu deild að þessu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert