Sigur Liverpool dugði ekki til

Jürgen Klopp var áhyggjufullur í leikslok í kvöld.
Jürgen Klopp var áhyggjufullur í leikslok í kvöld. AFP/Isabella Bonotto

Atalanta tók á móti Liverpool í seinni leik liðanna í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta í kvöld. Atalanta vann fyrri leik liðanna á Anfield, 3:0, á dögunum og var á brattann að sækja hjá gestunum úr Bítlaborginni. Liðin buðu upp á frekar lokaðan leik sem endaði með sigri Liverpool, 1:0.

Leikurinn var ekki nema 7. mínútna gamall þegar Liverpool hafði tekið forystuna en þar var að verki Mohamed Salah. Salah skoraði úr vítaspyrnu eftir að Matteo Ruggeri hafði fengið fyrirgjöf Trent Alexander-Arnold í hendina innan eigin vítateigs.

Luis Diaz var nálægt því að tvöfalda forystu Liverpool á 12. mínútu eftir flotta stungusendingu frá Cody Gakpo en Juan Musso, markvörður Atalanta, gerði vel í markinu og varði frá Diaz.

Mohamed Salah skorar úr vítaspyrnu í kvöld.
Mohamed Salah skorar úr vítaspyrnu í kvöld. AFP/Isabella Bonotto

Besta færi fyrri hálfleiksins, að vítaspyrnunni frátaldri, fékk Mohamed Salah á 38. mínútu. Cody Gakpo átti þá frábæra stungusendingu á Salah sem ætlaði að setja boltann yfir Musso í markinu en afgreiðslan hjá Egyptanum var ömurleg og skotið fór langt framhjá markinu.

Á 41. mínútu héldu heimamenn að þeir hefðu skorað þegar Teun Koopmeiners skoraði með góðu skoti en hann var dæmdur rangstæður og markið taldi því ekki.

Það héldu kannski margir að Liverpool liðið myndi sækja án afláts í seinni hálfleik og reyna að ná í þessi tvö mörk sem liðinu vantaði upp á til að komast í framlengingu en svo var nú ekki.

Davide Zappacosta og Alexis Mac Allister í baráttunni í kvöld.
Davide Zappacosta og Alexis Mac Allister í baráttunni í kvöld. AFP/Isabella Bonotto

Vörn Atalanta ríghélt og náði Liverpool ekki að skapa sér eitt marktækifæri í seinni hálfleiknum, sóknarleikur Liverpool var hugmyndasnauður og hægur og átti liðið ekki skilið að komast áfram úr þessu einvígi.

Það er því Atalanta sem vinnur einvígið, samanlagt 3:1, og fer áfram í undanúrslit Evrópudeildarinnar þar sem liðið mætir annaðhvort Marseille frá Frakklandi eða Benfica frá Portúgal.

Atalanta 0:1 Liverpool opna loka
90. mín. Atalanta fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert