Mourinho útilokaði stjörnuleikmann frá aðalliði Manchester United

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Bastian Schweinsteiger skýrði frá því í viðtali við Gary Neville að Jose Mourinho, þáverandi þjálfari Manchester United, hefði meinað Þjóðverjanum að æfa með aðalliði félagsins. John Murtough sem þá var yfirmaður knattspyrnumála hjá Manchester liðinu hafi meinað Schweinsteiger aðgang að búningsklefa liðsins þegar sá síðarnefndi sneri til baka úr sumarfríi eftir Evrópumótið í knattspyrnu árið 2016.

„Fyrsta daginn eftir frí æfði ég með liðinu, Zlatan Ibrahimovic var genginn til liðs við okkur og mér fannst frábært að æfa með honum. Daginn eftir, á afmælisdeginum mínum, beið Murtough fyrir utan klefann og bannaði mér að fara inn að beiðni þjálfarans.“

„Ég þurfti að biðja Murtough um að sækja takkaskóna mína og æfingagalla og æfði með 16 ára liðinu þann daginn. Eftir hádegi hitti ég Mourinho sem sagði mér að hann héldi að ég væri óánægður í Manchester þar sem ég hafði farið til Þýskalands í meðhöndlun vegna meiðsla árið áður. Hann leyfði mér aldrei að æfa með aðalliðinu heldur æfði ég einn með þrekþjálfara í þrjá mánuði, fyrir og eftir æfingar aðalliðsins. Ég fann að þeir vildu losna við mig en ég hélt að ef ég æfði vel myndu þeir skipta um skoðun, ég elskaði að spila fyrir Manchester United.“

Gary Neville var furðu lostinn eftir sögu Þjóðverjans og sagði aðferðir síns gamla félags ólöglegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert