Serena fagnaði sínum nítjánda risatitli

Serena Williams fagnar stigi af innlifun í morgun.
Serena Williams fagnar stigi af innlifun í morgun. EPA

Serena Williams var nú rétt í þessu að fagna sigri á Opna ástralska meistaramótinu í tennis, fyrsta risamóti ársins, eftir sigur á hinni rússnesku Mariu Sharapovu í úrslitaleik í Melbourne. Þetta var nítjándi risatitill Serenu á löngum ferli og situr hún nú ein í öðru sæti yfir flesta risatitla.

Þær stöllur eru í efstu tveimur sætum heimslistans, en hin bandaríska Williams hefur hins vegar haft nokkra yfirburði í viðureignum sínum við Sharapovu. Fyrir leikinn í dag hafði hún unnið hana fimmtán sinnum í röð, en fara þarf aftur til ársins 2004 til að leita uppi síðasta sigur Sharapovu, sem þá var sautján ára, á Williams.

Nokkuð rigndi í byrjun leiks og tafðist keppnin vegna þess á meðan þakinu fyrir ofan völlinn var lokað og völlurinn þurrkaður. Serena hafði nokkra yfirburði í fyrsta setti og lét flensu sem hefur verið að hrjá hana síðustu daga ekki á sig fá, en hún vann settið 6:3.

Sharapova kom sterk til baka í öðru setti og þær skiptust á að vinna loturnar. Settið fór í upphækkun þar sem spennan var mikil, en að lokum var það Serena sem hafði betur, 7:6 (7:5) og fagnaði um leið sínum sjötta sigri á þessu fyrsta risamóti hvers árs. Hún fagnaði einnig sigri árin 2003, 2005, 2007, 2009 og 2010, en eini sigur Sharapovu á þessu móti kom árið 2008.

Serena er jafnframt elsta konan sem fagnar sigri á mótinu og var raunar elsta konan sem komist hefur í úrslitaleikinn, 33 ára og 127 daga gömul. Titillinn í morgun var hennar nítjándi risatitill og situr hún nú ein í öðru sæti yfir flesta risatitla í kvennaflokki. Hún skilur Chris Evert og Martinu Navratilovu eftir í þriðja sætinu og nálgast óðfluga hinni þýsku Steffi Graf sem vann 22 risatitla á sínum ferli.

Maria Sharapova hefur nú tapað sextán sinnum í röð fyrir …
Maria Sharapova hefur nú tapað sextán sinnum í röð fyrir Serenu. AFP
Serena Williams með verðlaunagrip sinn.
Serena Williams með verðlaunagrip sinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert