Arna fékk fimm gullverðlaun

Arna Stefanía Guðmundsdóttir var sigursæl á Akureyri.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir var sigursæl á Akureyri. mbl.is/Árni Sæberg

Arna Stefanía Guðmundsdóttir úr FH var sigursælasti keppandinn á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum sem lauk síðdegis í dag en hún tryggði sér fimmtu gullverðlaunin í lokagreininni.

Arna var þá í sigursveit FH í 4x400 metra boðhlaupi en með henni voru María Rún Gunnlaugsdóttir, Þórdís Eva Steinsdóttir og Guðbjörg Bjarkadóttir. Sveitin hljóp á 3:56,06 mínútum og vann með yfirburðum en sveit ÍR kom 16 sekúndum seinna í mark og sveit Breiðabliks ellefu sekúndum þar á eftir.

Arna sigraði einnig í 400 metra hlaupi, 100 metra  grindahlaupi, 200 metra hlaupi, og svo í báðum boðhlaupunum með FH.

Kolbeinn Höður Gunnarsson var sigursælastur karla en hann fékk sín fjórðu gullverðlaun þegar FH vann 4x400 metra boðhlaupið í karlaflokki, lokagrein mótsins. Með honum í sigursveitinni voru Árni Björn Höskuldsson, Guðmundur Heiðar Guðmundsson og Arnaldur Þór Guðmundsson. Baráttan var hörð en FH sigraði á 3:27,88 mínútum, tæpum þremur sekúndum á undan Breiðabliki og UFA sem voru í öðru og þriðja sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert