Sunna meidd og berst ekki aftur á árinu

Sunna Rannveig Davíðsdóttir.
Sunna Rannveig Davíðsdóttir. Ljósmynd/Ásgeir Marteinsson

Bardagakonan Sunna Rannveig Davíðsdóttir berst ekki aftur á árinu vegna meiðsla á hægri hendi. Þetta staðfesti hún á Facebook-síðu sinni í dag. 

Sunna meiddist í bardaganum við Mallory Martin í apríl, en þrátt fyrir það barðist hún við Kelly D'Angelo í júlí. Eftir þann bardaga fann Sunna mikið til í hægri hendinni og gekk illa hjá læknum að finna út hvað var að hrjá hana. 

Sunna, sem hefur barist þrjá atvinnubardaga í blönduðum bardagalistum, gat lítið tjáð sig um hvers eðlis meiðslin væru, þar sem hún skildi þau ekki sjálf. Hún bætti hins vegar við að hún hafi tekið sér tvo mánuði í að jafna sig og líðan væri betri eftir að hún hitti sérfræðing í handameiðslum. 

Hún heldur áfram að æfa á fullu, þrátt fyrir meiðslin, og ætlar Sunna sér að berjast fljótlega á næsta ári, sterkari en nokkru sinni fyrr, að eigin sögn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert