Ekki hætt við New York-maraþonið

Hlauparar í New York-maraþoninu sjást hér hlaupa í gegnum Central …
Hlauparar í New York-maraþoninu sjást hér hlaupa í gegnum Central Park í hlaupi fyrir nokkrum árum. Öryggisgæsla verður hert verulega í tengslum við hlaupið á sunnudag. AFP

New York-maraþonið verður haldið á sunnudag eins og til stóð þrátt fyrir hryðjuverkið í borginni í gær, þegar maður notaði pallbíl til að aka inn í mannfjölda á Manhattan.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, tilkynnti þetta á fréttamannafundi í dag en sagði öryggisgæslu í tengslum við hlaupið þó verða aukna.

„Það verður haldið samkvæmt áætlun og það verður ótrúlegur viðburður eins og alltaf áður,“ sagði de Blasio.

Öryggi verði aukið verulega í borginni á meðan hlaupið fari fram, en rúmlega 50.000 hlauparar taka þátt í maraþoninu og búist er við að um 2,5 milljónir manna muni fylgjast með þátttakendum í hlaupinu af gangstéttum borgarinnar.

Meðal þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til er að koma þungum ökutækjum fyrir við hlaupaleiðina sem eiga að hindra að hægt sé að aka á hlaupara og þá mun lögregla, m.a. leyniskyttur, vakta svæðið ofan af húsþökum. Eins verða óeinkennisklæddir lögreglumenn á ferðinni að fylgjast með því hvort einhverjir grunsamlegir einstaklingar verði meðal áhorfenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert