SR tryggði sér oddaleik með frábærum sigri í Laugardal

Róbert Hafberg, leikmaður SA, með pökkinn í leiknum í kvöld.
Róbert Hafberg, leikmaður SA, með pökkinn í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skautafélag Reykjavíkur tryggði sér oddaleik í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í íshokkí karla með sigri á Skautafélagi Akureyrar, 5:3, í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld.

SR vann fyrsta leik einvígisins á Akureyri en SA svaraði með tveimur sigrum, einum í Laugardal og einum á Akureyri. Liðið hafði því tækifæri á að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í kvöld en allt kom fyrir ekki.

Mikill hraði var í leiknum í fyrsta leikhluta og skiptust liðin á þungum sóknum. Heilt yfir sóttu heimamenn meira, áttu í það minnsta fleiri skot, en það voru þó gestirnir sem skoruðu fyrsta markið. 

Tveir leikmenn SR fengu þá tveggja mínútna brottvísun með stuttu millibili og voru gestirnir að norðan því tveimur fleiri á svellinu. Því fylgdi eðlilega mikil skothríð og eftir eitt skotanna datt pökkurinn fyrir Una Sigurðarson fyrir framan mark SR sem ýtti honum yfir línuna.

Við það eyddist önnur brottvísun heimamanna eins og reglan segir til um en liðið var áfram einum manni færri. Þrátt fyrir það tókst Axeli Orongan að koma sér fram allt svellið með pökkinn, setja hann framhjá Jakobi í marki SA og jafna metin. Ekki annað hægt en að skrifa þetta á kæruleysi hjá gestunum enda í yfirtölu.

Heimamenn komust svo yfir þegar rúm mínúta var eftir af fyrsta leikhluta. Felix Dahlstet átti þá bylmingsskot af löngu færi sem söng í netinu, þar sem Jakob kom engum vörnum við. Það voru því heimamenn í SR sem leiddu að loknum fyrsta leikhluta, 2:1.

Það voru heimamenn sem mættu margfalt sterkari út í annan leikhluta. Liðið lék af miklum krafti sem gestirnir virtust ekkert ráða við en þeim gekk bölvanlega að halda pekkinum innan liðsins. SR-ingar uppskáru strax á fimmtu mínútu leikhlutans en þá setti Gunnlaugur Þorsteinsson pökkinn upp í bláhornið, gjörsamlega óverjandi fyrir Jakob, eftir mikinn klaufagang í vörn SA.

Einungis tveimur mínútum síðar náðu heimamenn svo þriggja marka forystu. Ólafur Björnsson átti þá skot af dágóðu færi sem fór framhjá markinu, í vegginn fyrir aftan það og svo aftan í fótinn á Jakobi og inn. Jakob hafði rennt sér til hliðar til að reyna að verja skotið og var óheppinn að fá pökkinn í sig og inn. Klárlega mikill heppnisstimpill yfir markinu en það hefur oft verið talað um að maður skapi sína eigin heppni.

Gestirnir frá Akureyri voru þó ekki alveg tilbúnir að gefast upp og á 32. mínútu skoraði Jóhann Már Leifsson sannkallað töframark. Hann tók pökkinn þá upp við eigið mark þegar nokkrar sekúndur voru eftir af einni af mörgum yfirtölum gestanna í leiknum, rak hann fram allt svellið og lagði hann svo í netið framhjá Jóhanni í marki SR. Þess má geta að Jóhann skoraði nánast nákvæmlega eins mark bæði í leik númer tvö og einnig í leik númer þrjú svo undirritaður spyr sig hreinlega hvort hann gæti ekki gert þetta oftar.

Fleiri urðu mörkin ekki í leikhlutanum þrátt fyrir fín færi á báða bóga og voru það því heimamenn í SR sem leiddu með tveimur mörkum fyrir lokaleikhlutann.

Þegar fimm mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta var það svo Jóhann Már sem minnkaði muninn í eitt mark með öðru marki sínu í leiknum. SA-liðið hafði þá náð góðri yfirtölu sem endaði með því að Jóhann átti skot sem fór af Bjarka Jóhannessyni leikmanni SR og í netið.

SA-menn gerðu sér erfitt fyrir síðustu mínútur leiksins með brottvísunum en liðið var mjög mikið manni færri í þriðja leikhluta. Þegar örfáar mínútur voru eftir varð liðið loks fullskipað og fór þá allt púður í að reyna að jafna metin. Þegar um mínúta var eftir tók liðið Jakob úr markinu og setti auka útileikmann á svellið. Hins vegar missti Atli Sveinsson pökkinn til Axels Orongans þegar níu sekúndur voru eftir af leiknum og Axel átti ekki í vandræðum að skauta upp og skora í opið mark.

Lokatölur í Laugardalnum því 5:3, SR í vil. Það er því ljóst að liðin þurfa að mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn en sá leikur fer fram í Skautahöllinni á Akureyri á fimmtudaginn klukkan 16.45.

Atli Sveinsson, leikmaður SA, verst Ólafi Björnssyni leikmanni SR.
Atli Sveinsson, leikmaður SA, verst Ólafi Björnssyni leikmanni SR. mbl.is/Eggert Jóhannesson
SR 5:3 SA opna loka
60. mín. Axel Orongan (SR) Mark 5:3! - AXEL ER AÐ KLÁRA ÞETTA!! SA var búið að taka Jakob úr markinu til að freista þess að jafna metin en þá missti Atli Sveinsson pökkinn til Axels sem var ekki í vandræðum með að bruna upp og skora í opið mark!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert