Karen stendur vel að vígi

Karen Guðnadóttir
Karen Guðnadóttir Ljósmynd/igolf.is

Lokamót Eimskipsmótaraðarinnar, Goðamótið fer fram á Jaðarsvelli Akureyri um helgina og eru 59 skráðir í karlaflokkinn og 14 kylfingar í kvennaflokkinn. Leiknar verða 36 holur á laugardeginum og 18 holur á sunnudaginn.

Þrír efstu kylfingarnir á stigalista Eimskipsmótaraðarinnar verða á meðal keppenda í karlaflokknum en Kristján Þór Einarsson, Íslandsmeistari í höggleik 2014, hefur nú þegar tryggt sér sigur í stigakeppninni á Eimskipsmótaröðinni og er hann stigameistari árið 2014 með 74.10,67 stig. Hörð barátta er á milli Bjarka Péturssonar úr Golfklúbbi Borgarnes og Gísla Sveinbergssonar úr Golfklúbbnum Keili um annað sætið en Bjarki er með 4948,75 stig en Gísli er með 4469,17 stig.

Það er meiri spenna í kvennaflokknum hvað varðar keppnina um stigameistaratitilinn á Eimskipsmótaröðinni. Karen Guðnadóttir úr GS er efst með 6468,50 stig en þær sem koma í sætunum þar á eftir eru fjarverandi á þessu móti. Signý Arnórsdóttir úr GK, sem varð stigameistari í fyrra í fjórða sinn frá árinu 2009, er í fjórða  sæti með 5453,50 stig. Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR er í fimmta sæti með 4936,00 stig og er hún einnig á meðal keppenda á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert