Heil umferð í handboltanum í kvöld

FH og Haukar spila bæði á heimavelli í kvöld.
FH og Haukar spila bæði á heimavelli í kvöld. mbl.is/Golli

Fjórða umferðin í Olís-deild karla í handknattleik verður leikin í heild sinni í kvöld en allir fimm leikirnir eru á dagskránni, sem er óvenjulegt en yfirleitt er hver umferð spiluð á tveimur dögum.

Stórleikur kvöldsins, miðað við stöðuna í deildinni, er viðureign FH og ÍR í Kaplakrika klukkan 19.30. Bæði liðin eru taplaus og eru í öðru og þriðja sæti deildarinnar með 5 stig eftir þrjá leiki. FH gerði jafntefli við ÍBV en vann síðan Fram og Hauka. ÍR-ingar gerðu jafntefli við Val og unnu síðan ÍBV og Fram.

Nýliðar Aftureldingar eru á toppi deildarinnar, eina liðið með fullt hús stiga, 6 talsins. Mosfellingarnir fara nú í heimsókn í Safamýri þar sem þeir mæta Fram klukkan 19.30. Framarar eru með 2 stig en Afturelding er búið að vinna Stjörnuna, Val og ÍBV í þremur fyrstu leikjum sínum.

Akureyri fær Val í heimsókn og leikur liðanna hefst klukkan 18 fyrir norðan. Akureyri er með 4 stig og Valur 3 stig en liðin eru í fjórða og fimmta sæti deildarinnar.

Haukar og Stjarnan mætast á Ásvöllum klukkan 19.30 en bæði liðin eru með 2 stig og þau eru í 7.-8. sæti.

Uppfært: Búið er að fresta leik ÍBV og HK, tveggja neðstu liða deildarinnar, sem fram átti að fara í Vestmannaeyjum í kvöld. Leikurinn fer fram 13. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert