Líður best þegar mest er undir

Elvar Ásgeirsson, leikmaður Aftureldingar, sækir að marki FH í leik …
Elvar Ásgeirsson, leikmaður Aftureldingar, sækir að marki FH í leik liðanna í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tilfinningin er virkilega góð eins og alltaf þegar maður vinnur,” voru fyrstu viðbrögð Birkis Benediktssonar, leikmanns Aftureldingar eftir 27:26 sigur á FH í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld.

Birkir skoraði mikilvæg mörk í seinni hálfleik, en hann skoraði sigurmark Aftureldingar þegar mínúta var eftir af leiknum. Honum leið vel þegar spennan var sem mest, en seinni hálfleikurinn hans var töluvert betri en sá fyrri.

„Taugarnar voru mjög góðar og ég höndla það yfirleitt mjög vel að spila svona jafna leiki. Ég er ekki mikið að spá í því hver staðan er eða hvað er mikið eftir, ef ég sé færi, þá tek ég á skarið. Ég var frekar slappur í fyrri hálfleik. Ég varð þreyttur strax og það var þungt yfir mér. Ég náði að rífa mig upp í hálfleik.”

Eins og áður segir, skoraði Birkir sigurmarkið þegar að mínúta var eftir en FH-ingum tókst ekki að jafna í síðustu sókninni. Birkir hafði ekki miklar áhyggjur á að jöfnunarmarkið myndi koma.

„Mér leið alltaf vel á móti þeim, heilt yfir fannst mér við vera með þá svo tilfinningin var góð, mér leið vel,” sagði Birkir, en hann var markahæstur í leiknum með átta mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert