Búnir að snúa skútunni við

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka.
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka. mbl.is/Ófeigur

„Ég er hrikalega ánægður með karakterinn í liðinu. Við vorum lentir undir í seinni hálfleik og oft í vetur höfum við brotnað í þessu momenti en núna höfðum við karakterinn til að snúa þessu við," sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka eftir 33:28 sigur á Stjörnunni í kvöld. 

Stjarnan komst tveim mörkum yfir þegar rúmar tíu mínútur lifðu leiks en þá tók við glæsilegur kafli hjá Haukum þar sem þeir skoruðu sjö mörk í röð og lögðu gruninn að sigrinum. 

„Menn komu sterkir inn af bekknum og við breytum vörninni í 5-1 og Einar Ólafur kom í markið. Við spiluðum 5-1 mikið í Svíþjóð um helgina og það hjálpaði okkur núna. Andri var flottur fyrir framan og Danni kom inn með mörk og var góður." 

„Bubbi var að verja hinum megin og við vorum ekkert að verja á móti og það hallaði á okkur en Einar Ólafur kemur sterkur inn. Ég var ánægður með síðustu tíu, breiddin var meiri í dag og hún kom sér vel."

Nýttum þessa helgi vel

Eftir mjög erfiða byrjun hafa Haukar hægt og rólega komið til baka og er Gunnar ánægður með standið á liðinu þessa stundina en hann segir að ferðin til Svíþjóðar, til að spila í Evrópukeppni, hafi hjálpað liðinu. 

„Mér finnst við vera búnir að snúa skútunni við og erum byrjaðir að sigla í rétta átt, ég sé framfarir. Þetta var stórt skref fram á við að brotna ekki við mótlæti heldur koma sterkir til baka en ég sef ekki rólegur fyrr en við erum komnir fulla ferð áfram."

„Við nýttum þessa helgi vel. Að vera á góðu hóteli, með góða sjúkraþjálfara, þá kemur maður oft ferskari til baka og við unnum vel í sjálfum okkur úti."

Í blálokin fuku þrír leikmenn Hauka útaf með mjög skömmu millibili með tvær mínútur. 

„Við fáum eitt fyrir kjaft á bekknum, það er óafsakanlegt. Ég þarf að skoða þessa brottrekstra, eitthvað af þessu var rétt. Það var lítið eftir. Þetta má ekki koma fyrir og við vorum heppnir að hafa gott forskot," sagði Gunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert