Valur með 58 leiki á tímabilinu

Jóhann Karl Reynisson og Einar Rafn Eiðsson úr FH reyna …
Jóhann Karl Reynisson og Einar Rafn Eiðsson úr FH reyna að stöðva Anton Rúnarsson, Val. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fá ef nokkur dæmi eru um að íslenskt handboltalið hafi leikið eins marga leiki og karlalið Vals í vetur. Oddaleikur liðsins við FH í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í Kaplakrika í dag verður 58. leikur liðsins frá því 18. ágúst, ef öll mót eru talin.

Þetta þýðir að Valsmenn hafa leikið leik að meðaltali á 4,8 daga fresti í vetur. Ekkert var leikið í janúar, vegna heimsmeistaramótsins í Frakklandi, og ef sá mánuður er tekinn út úr dæminu hafa Valsmenn spilað á rétt rúmlega 4 daga fresti.

Líkt og önnur lið í úrvalsdeildinni lék Valur 27 leiki þar í vetur, sem er í hæsta lagi. Tíu lið voru í deildinni í vetur og spiluð þreföld umferð, en á næstu leiktíð verða til að mynda aðeins leiknar 22 umferðir í 12 liða deild. Leikurinn við FH á morgun verður 11. leikur Vals í úrslitakeppninni.

Átta Evrópuleikir

Valsmenn léku 4 leiki í bikarkeppninni, sem þeir unnu, og einn leik í deildabikarnum um jólin en þar féllu þeir út í undanúrslitum. Evrópuævintýri þeirra, sem lauk í undanúrslitum í Rúmeníu með ósanngjörnum hætti, var 8 leikir. Valsmenn hófu tímabilið á Meistarakeppninni, þar sem ríkjandi bikarmeistarar mæta Íslandsmeisturum, og höfðu þá leikið samtals 6 leiki á tveimur æfingamótum í ágúst.

Leikjaálagið hefði nánast ekki getað orðið meira hjá Valsmönnum í vetur. Þeir hefðu þó mest getað bætt 5 leikjum við sína 58 leiki, ef þeir hefðu komist í úrslitarimmu Áskorendabikars Evrópu, í úrslitaleik deildabikarsins, og unnið Fram 3:2 en ekki 3:0 í undanúrslitum Íslandsmótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert