Góður varnarleikur var lykillinn

Björgvin Páll Gústavsson var öflugur í sigri Hauka gegn ÍR …
Björgvin Páll Gústavsson var öflugur í sigri Hauka gegn ÍR í kvöld. mbl.is/Golli

„Ég er himinlifandi með að ná í tvo punkta. Við spiluðum frábæran varnarleik í þessum leik og héldum þeim undir 20 mörkum. Við erum með markmið um að halda liðum undir 25 mörkum og ég er mjög ánægður með að það hafi tekist í þessum leik,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka, í samtali við mbl.is, en hann spilaði sinn fyrsta deildarleik fyrir liðið þegar liðið lagði ÍR að velli, 21:19, í fyrsta leik Olísdeildar karla í handbolta í kvöld. 

„Við vorum í smá ströggli í sóknarleiknum sem er eðlilegt í ljósi þess að við erum með marga leikmenn í meiðslum. Við erum að slípa saman liðið í sóknarleiknum og við erum að spila leikmönnum sem hafa ekki spilað marga leiki saman. Það þýðir samt ekkert að væla yfir þessum skakkaföllum heldur verðum við bara að tækla þetta,“ sagði Björgvin Páll um spilamennsku Hauka í leiknum. 

Björgvin Páll varði 19 skot í leiknum og þar af þrjú vítaskot. Björgvin Páll var þokkalega sáttur við eigin frammistöðu, en vildi þó ekki gera mikið úr eigin þætti í þessum sigri. 

„Ég er aðallega að pæla í því markmiði að halda andstæðingnum undir 25 mörkum. Það skiptir mig engu máli hversu mörg skot ég ver ef við náum því markmiði. Ef við höldum áfram að spila svona góða vörn þá munum við halda áfram á réttri braut,“ sagði Björgvin Pall um eigin frammistöðu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert