Missir af þremur milljörðum

Anthony Davis.
Anthony Davis. AFP

Anthony Davis, leikmaður New Orleans Pelicans í NBA-deildinni í körfuknattleik, missir af tæplega 3 milljörðum íslenskra króna eftir að honum mistókst að komast í eitt af liðum ársins.

Anthony Davis, oft þekktur undir viðurnefninu „The Brow“ vegna samvaxinna augabrúna, gerði stóran samning við Pelicans síðasta sumar að frábæru tímabili loknu. Hluti af samningnum var að nýta sér hina svokölluðu „Rose reglu“, sem gerir leikmanni kleift að græða allt að 30 prósent af launaþaki liðs síns, í staðinn fyrir 25 prósent, sem er meginreglan. Til þess að virkja „Rose regluna“, þarf leikmaður að vera valinn verðmætasti leikmaður tímabilsins, komast byrjunarlið stjörnuliðs eða komast tvívegis í lið ársins. 

Davis átti í meiðslavandræðum á þessu tímabili og tókst þar af leiðandi ekki að tryggja sér byrjunarliðssæti í stjörnuleiknum í Toronto á þessu ári. Hann komst ekki heldur í neitt af þremur liðum ársins og því missir hann af 3 milljörðum króna. 

Samningurinn, sem byggður var á forsendunni að Davis tækist að nýta sér „Rose regluna“, átti að vera virði 18 milljarða króna á fimm árum, en í staðinn verður hann virði 15 milljarða króna.

„Rose reglan“ er nefnd í höfuðið á Derrick Rose, leikmanni Chicago Bulls, sem þótti gríðarlegt efni og var verðmætasti leikmaður tímabilsins 2010-2011, yngsti í sögunni. Tímabili síðar sleit Rose krossband og hefur glímt við stanslaus meiðslavandræði síðan.

Derrick Rose
Derrick Rose AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert