Þetta var mikilvægt fyrir okkur

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar.
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar. mbl.is/Eggert

„Vörnin í fjórða leikhluta. Við vorum búnir að fá nokkur tækifæri til að klára leikinn. Davíð fékk opinn þrist, Emil fékk opinn þrist og Tobin fékk gott færi en með varnarleiknum fengum við þó nokkur tækifæri til að klára þetta og það tókst að lokum og ég er mjög ánægður með frammistöðuna," sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn, um hvað réði úrslitum í 82:77 sigrinum á Haukum í 3. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld. 

Haukar fengu tækifæri til að jafna í 80:80 undir lokin en Finnur Atli Magnússon fór þá í erfitt þriggja stiga skot sem geigaði. Þess í stað fóru Þórsarar í sókn og gulltryggðu sigurinn. Einar segir að það hefði orðið mjög svekkjandi ef framlenging hefði orðið staðreynd. 

„Það hefði verið mjög svekkjandi. Mér fannst við vera búnir að gera nóg í síðari hálfleiknum til að eiga sigurinn skilið. Þeir taka sex sóknarfráköst í fyrri hálfleik en þeir náðu bara einu í þriðja leikhluta. Við vorum farnir að gera betur í vörninni og að halda þessu góða sóknarliði í 77 stigum á þeirra góða heimavelli er eitthvað sem ég er virkilega ánægður með. Við tökum það með okkur."

Vissi hvað ég var að fá

„Þetta var mikilvægt fyrir okkur í þeirri trú og von á gott gengi. Haukarnir hafa reynst okkur erfiðir þó við unnum þá þrisvar í fyrra, þá fórum við illa úr deildarleikjunum á móti þeim svo þetta er risastórt skref fram á við."

Tobin Carberry átti mjög góðan leik fyrir Þórsara en hann skoraði 27 stig ásamt því að taka níu fráköst. Carberry spilaði með Hetti á síðustu leiktíð. 

„Ég vissi hvað ég væri að fá, bæði í gæði leikmanns og manneskju. Viðar Örn, þjálfari Hattar, er góður vinur minn og hann var búinn að segja mér að þarna væri prýðismanneskja. Hann er ekki bara að skora, hann er að búa til helling fyrir samherja sína. Hann er virkilega flottur og ég er glaður með hans frammistöðu og liðsins alls," sagði Einar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert