„Þetta var hræðilegt“

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka. mbl.is/Kristinn

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, var skiljanlega afar brúnaþungur eftir leikinn gegn KR í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld. KR vann öruggan sigur, 94:61.

„Þetta var í einu orði sagt skelfileg frammistaða,“ sagði Ívar í samtali við mbl.is eftir leikinn á Ásvöllum í kvöld.

„Við skorum 22 stig á fyrstu átta mínútunum. Það er held ég 22:20 fyrir okkur þá. Þegar fjórar eða fimm mínútur eru búnar af þriðja leikhluta erum við búnir að skora 34 stig. Sóknarlega vorum við hræðilegir,“ sagði Ívar en hann var ekki ánægður með framlag lykilmanna:

„Lykilmennirnir eru ekki að skila neinu til okkar og þeir eru bara vandræðalega lélegir sóknarlega. Að spila móti liði eins og KR sem var að hitta og skjóta vel og er með sjálfstraustið í botni. Lykilmenn komu hérna með hangandi haus eftir að útlendingur var látinn fara og það átti að stóla á okkar menn. Þeir komu eins og þeir væru að fara að spila á móti einhverju utandeildarliði. Þetta var hræðilegt.“

Ívari fannst sínir menn missa hausinn örlítið þegar KR-ingar fóru að hitta úr sínum skotum. „Við vorum i góðu jafnvægi til að byrja með. Síðan um leið og þeir hittu einhverjum þremur þriggja stiga þá ætlum við beint upp að plaffa niður þriggja á móti. Þá hrundi allt og menn hættu að gera það sem þeir voru að gera. Þetta var hræðilegt.“

Útlendingurinn bjargar ekki öllu

Haukar riftu í vikunni samningi við erlenda leikmanninn Aaron Brown en fengu í hans stað Sherrod Wright. Sá síðar­nefndi lék á síðustu leiktíð með Snæ­felli og er því öll­um hnút­um kunn­ug­ur hér á landi. Ívar veit ekki hvort Wright verður með Haukum í næsta leik en hann er ekki kominn með leikheimild:

„Það verður að koma í ljós. Það er verið að vinna í pappírum og vonandi verða öll leyfi klár. Félagaskiptin eru ekkert mál en þessi dvalarleyfi taka langan tíma. Útlendingurinn er samt ekkert að fara að koma og gera okkur að góðu liði. Leikmenn og allir í kringum liðið þurfa að kíkja á hvað er í gangi. Menn þurfa að stíga upp,“ sagði Ívar Ásgrímsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert