Bikarmeistararnir unnu og Valur deildarmeistari

Remy Martin með boltann í kvöld.
Remy Martin með boltann í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Keflavík hafði betur gegn Njarðvík, 127:114, þegar liðin áttust við í Suðurnesjaslag í 21. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Keflavík í kvöld.

Með sigrinum komu nýkrýndir bikarmeistarar Keflavíkur sér upp fyrir Njarðvík og tylltu sér í annað sætið, sem þýðir að Valur er deildarmeistari.

Þegar aðeins ein umferð er eftir eru bæði Keflavík og Njarðvík með 30 stig í öðru og þriðja sæti en Valur með 34 stig í toppsætinu.

Þægilegur sigur Keflvíkinga í grannarimmunni

Þetta er viðureign þar sem að öllu jöfnu er hart barist og úrslit ráðast á lokasekúndum leiksins. Í kvöld voru það hins vegar Keflvíkingar sem silgdu í land nokkuð þægilegum sigri.

Rimman í kvöld milli liðanna var nokkuð einstök að því leyti að deyfð var yfir vötnum hjá bæði stuðningsmönnum og leikmönnum liðanna. Bikarmeistararnir höfðu í það minnsta þá afsökun að þeir eru nýskriðnir upp úr fögnuði á bikarmeistaratigninni.

Njarðvíkingar hafa hinsvegar engar afsakanir til að halla sér að. Í leik þar sem stolt og ástríða á að ráða ríkjum þá virtust Njarðvíkingum hreinlega vera algerlega sama um varnarleik sinn lungann úr kvöldinu. 

Það var augljóslega ekkert skipulag fyrir kvöldið þeim megin á vellinum hjá grænum nema þá kannski að vonast til að hitta á Keflvíkinga í einhverri „bikarþynnku.“

Þvert á það voru Keflvíkingar bara í fínu stuði og hittu grimmt úr skotum sínum, ekki nema von því fyrirstaðan var engin. Remy Martin fór sem fyrr fyrir Keflavíkurliðinu og skoraði í raun þegar honum datt í hug að gera það. 35 stig frá kappanum og einhver 14 þeirra komu í fjórða leikhluta þar sem hann hreinlega gekk frá Njarðvíkingum endanlega.

Dwayne Lautier var í raun eini leikmaður Njarðvíkur sem spilaði á pari í kvöld og reyndi að láta til sín taka. Aðrir leikmenn voru langt frá sínu besta og litu á tímum út fyrir að vera hræddir við að láta almennilega til sín taka. 

Léttleikandi Keflvíkurliðið lítur hinsvegar ansi vel út þegar úrslitakeppnin er rétt handan við hornið. Erfitt kannski að dæma þá af frammistöðu kvöldsins þar sem fyrirstaðan var í besta falli aum.

Njarðvíkingar sem fyrir kvöldið áttu veikan möguleika á deildarmeistaratitli eru fallnir í þriðja sætið og eiga einmitt leik gegn deildarmeisturum Vals í síðustu umferð.

Keflavík 127:114 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert