Heita því að bjarga gíslinum

Japanar hafa í dag syrgt blaðamanninn Kenji Goto sem tekinn …
Japanar hafa í dag syrgt blaðamanninn Kenji Goto sem tekinn var af lífi af IS-samtökunum í gær. EPA

Yfirvöld í Jórdaníu hétu því í dag að þau myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að bjarga flughermanni sínum úr greipum íslamistanna í IS-samtökunum. Kemur yfirlýsingin í kjölfar drápsins á japanska blaðamanninum Kenji Goto.

Sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar að Jórdanía myndi „gera allt sem hægt er að gera til að bjarga lífi og tryggja lausn“ flugmannsins Kassasbehs, sem var tekinn til fanga af samtökunum eftir að flugvél hans brotlenti í Sýrlandi í desember.

Samtökin hafa krafist þess að írökskum hryðjuverkamanni, sem bíður dauðadóms í Jórdaníu, verði sleppt og í staðinn muni samtökin leyfa Kassasbeh að lifa. Ríkisstjórn Jórdaníu hefur látið í ljós að hún muni sættast á þá skilmála en þó aðeins ef hún fær afhenta sönnun um að Kassasbeh sé á lífi.

Safi Kassasbeh, faðir flugmannsins sem heitir fullu nafni Maaz al-Kassasbeh, fordæmdi morð samtakanna á Kenji Goto og segir í samtali við fréttaveitu AFP að ríkisstjórn Jórdaníu sé ábyrg fyrir örlögum sonar hans.

„Maaz er sonur okkar en hann er einnig sonur hersins, og ríkisstjórnin ber ábyrgð á honum,“ segir Safi Kassasbeh, sem hefur undanfarna daga knúið á yfirvöld að sækjast eftir lausn hans, „hvað sem það kostar“.

Maaz al-Kassasbeh.
Maaz al-Kassasbeh. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert