Tóku nauðgarann af lífi án dóms og laga

Yfirvöld í indversku borginni Dimapur hafa lýst yfir útgöngubanni eftir að meintur nauðgari var sóttur í fangelsi borgarinnar og tekinn af lífi án dóms og laga af æstum múg í gær. Annar maður lést í múgæsingnum er hann varð fyrir skoti frá lögreglu sem reyndi að stilla til friðar.

MBL.IS VARAR VIÐ MYNDUM SEM FYLGJA ÞESSARI FRÉTT.

Maðurinn sem var tekinn af lífi er sakaður um að hafa nauðgað ungri konu ítrekað, hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í febrúar. Mikil spenna hefur verið í Nagaland héraði allt frá því að maðurinn var sakaður um nauðgun og upp úr sauð í gær er hópur manna gerði atlögu að fangelsinu, dró manninn út og barði hann til bana. Var lík hans síðan hengt upp á kirkjuturn í borginni í gær.  25 ára maður sem tók þátt í árásinni særðist er hann varð fyrir skoti lögreglu og lést af sárum sínum á sjúkrahúsi.

Lögreglustjórinn í Dimapur segir að unnið sé að því að koma stjórn á ástandið í borginni og því hafi verið ákveðið að setja útgöngubann á.

Samkvæmt upplýsingum AFP fréttastofunnar er maðurinn innflytjandi frá Bangladess og í gær og dag hafa verið gerðar fjölmargar árásir á fyrirtæki í eigu fólks frá Bangladess.

Frumbyggjar í Nagaland hafa í mörg ár kvartað sáran yfir ágangi múslíma frá Bangladess og segja þá setjast að með ólöglegum hætti á landi þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert