Fyrsta netfórnarlambið?

Monica Lewinsky talar af einlægni um neteinelti í fyrirlestrinum.
Monica Lewinsky talar af einlægni um neteinelti í fyrirlestrinum. AFP

Nafn Monicu Lewinsky varð skyndilega á allra vörum eftir að upp komst um ástarsamband hennar og Bill Clinton Bandaríkjaforseta árið 1998. Lewinsky sneri nýverið aftur fram á sjónarsviðið eftir áralangt sjálfskipað fjölmiðlabann og rís nú upp gegn neteinelti. Fyrirlestur hennar á TED.com hefur vakið mikla athygli.

Lærlingurinn í Hvíta húsinu, Monica Lewinsky, varð á einni nóttu heimsþekkt aðeins 24 ára gömul þegar hún gerði þau mistök að verða ástfangin af yfirmanni sínum. Í hjartnæmum fyrirlestri á nýlegri TED ráðstefnu sem hún kallar „the price of shame“ eða „gjald niðurlægingarinnar“ eins og það gæti útlagst á íslensku ræðir Lewinsky opinskátt um reynslu sína af því að hafa verið fórnarlamb neteineltis (e. cyper bullying), þó hún bendi á að fyrirbærið hafi ekki verið komið með nafn þá.

Lewinsky vill með fyrirlestrinum opna umræðuna um neteinelti og ljá þeim rödd sem lent hafa illa í því og verið jafnvel ofsótt með einhverjum hætti á netinu.

Lítið hafði heyrst frá Lewinsky, sem nú er 42 ára, í um áratug þegar hún veitti tímaritinu Vanity Fair viðtal á síðasta ári. Í því viðtali lýsti hún alvarlegum afleiðingum ástarsambandsins við Bill Clinton og dró athyglina sérstaklega að vefmiðlum, líkt og hún gerir í fyrirlestrinum nú. Hún bendir á að á þessum tíma hafi engir samfélagsmiðlar verið til en fréttin um hana og Clinton hafi þó fyrst komið fram á vefmiðlum. Myndir af henni hafi á skömmum tíma verið komnar út um allan heim. Hún hafi á örskotsstundu farið frá því að vera óþekkt ung kona í Washington yfir í það að vera niðurlægð opinberlega um víða veröld. Hún hafi orðið skotspónn og þurft að líða fyrir þessi mistök á allt annan hátt en sjálfur Bandaríkjaforsetinn. Hann hafi þurft að vernda sína valdastöðu og hún hafi bara verið peð sem mátti fórna.

Missti æruna á einni nóttu

Eins og fyrirlesturinn ber með sér hefur Lewinsky öðlast þroskað sjónarhorn á atburði ársins 1998, þegar upp komst að Bill Clinton hafði haldið við hana, og hún greinir atburðarásina á áhugaverðan hátt.

„Þegar ég var 22 ára varð ég ástfangin af yfirmanni mínum. Þegar ég var 24 ára varð ég að horfast í augu við eyðileggjandi afleiðingar þess,“ segir Lewinsky.

Og hún heldur áfram.

„Árið 1998, eftir að óviðeigandi ástarsamband hafði kippt undan mér fótunum þá var fótunum kippt undan mér í pólitískum fjölmiðlastormi sem var ólíkur öllu sem við höfðum áður kynnst. Þessi skandall var í boði hinnar rafrænu byltingar.

Þegar fréttin kom út þá kom hún út á netinu. Þetta var í eitt af fyrstu skiptunum sem vefmiðlar voru á undan hefðbundnum fréttamiðlum með stórfrétt.“

Ljósmyndir af Lewinsky, sérstaklega ein mynd af henni í bláum kjól, fóru á methraða um netið og kommentin fóru að streyma inn. Lewinsky var kölluð öllum illum nöfnum á netinu og myndum dreift víða henni til háðungar, gjarnan gengu tölvupóstar með myndum af henni manna á milli.

„Ég var kölluð drusla, hóra, tussa, heimskingi. Ég missti æruna, stolt mitt og næstum lífið. Fyrir sautján árum síðan var ekki til neitt nafn yfir þetta en í dag köllum við þetta neteinelti eða netáreitni,“ segir Monica Lewinsky.

Líklega má kalla Lewinsky fyrsta fórnarlamb neteineltis á heimsvísu. Nokkrum árum áður hafði fólk aðeins þrjár leiðir til að fá fréttir: útvarp, sjónvarp og dagblöð. Þegar mál Lewinsky komst upp á yfirborðið var netið að slíta barnsskónum en segja má að fréttir af framhjáhaldi hennar og Bill Clinton hafi verið fyrsti netskandallinn.

Lewinsky hefur lítið látið á sér bera síðastliðinn áratug eða svo. Hún lýsir því í fyrrnefndu viðtali í Vanity Fair að nær ógerlegt hafi reynst fyrir hana að fá vinnu í Bandaríkjunum. Árið 2008 lauk hún framhaldsnámi í sálfræði frá breskum háskóla en komst að því þegar hún sneri aftur til Bandaríkjanna að nafn hennar var síður en svo gleymt. Enginn vildi fá Monicu Lewinsky í vinnu.

Dauði Tyler Clementi hafði áhrif

Hún segist hafa vaknað upp við vondan draum árið 2010 þegar hún las fréttir af því að háskólanemi að nafni Tyler Clementi hefði svipt sig lífi eftir að myndir af honum í kynmökum með öðrum karlmanni láku á netið. Þá fannst Lewinsky að tími væri líklega kominn til þess fyrir hana að stíga fram og segja söguna af því þegar hún og hennar einkalíf var opinberað á netinu. Í hennar tilviki voru þetta ekki aðeins myndir af henni og nafnbirting, heldur voru upptökur af einkasamtölum hennar við konu sem hún taldi vinkonu sína settar á netið, en í þeim lýsti hún ástarsambandi sínu við Clinton nákvæmlega.

Dauði Tylers var vendipunktur fyrir Lewinsky. Hún fór að geta sett sína reynslu í samhengi og rifjaði upp tíma þegar foreldrar hennar vöktuðu hana hverja stund því þau voru hrædd um að hún yrði „auðmýkt til dauða“ eins og hún orðar það. Um tíma var óttast að hún myndi svipta sig lífi.

Lewinsky er umhugað um að opna umræðu um ábyrgð. Ekki sé nóg að tala um frelsi til tjáningar heldur verði fólk að vera tilbúið að axla ábyrgð, ekki bara einstaklingar heldur líka vefmiðlar sem geri út á það að birta niðurlægjandi fréttir af einkalífi fólks.

Hún bendir einnig á að við sem neytendur frétta verðum sífellt ónæmari fyrir því þegar fólk er niðurlægt og viðkvæmar persónuupplýsingar birtar á netinu. Hún hvetur fólk til að setja sig í spor þeirra sem fyrirsagnirnar fjalla um eða eins og hún orðar það: „walk a mile in someone elses headline“ – prófa að „lifa lífi sínu undir fyrirsögn um einhvern annan“.

Með fyrirlestrinum vill Monica Lewinsky leitast við að hjálpa þeim sem telja að öll sund séu lokuð og líður eins og lífið sé búið vegna einhvers sem birst hefur um viðkomandi á netinu.

Hennar skilaboð eru að fórnarlömb neteineltis séu nú þegar orðin allt of mörg. Nú sé kominn tími til að snúa við blaðinu og hafa samkennd að leiðarljósi en hætta að framleiða og deila efni á netinu sem gengur ekki út á neitt nema opinbera niðurlægingu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert