Seldu nýfædd börn

Eldingar yfir borginni Cali í Kólumbíu.
Eldingar yfir borginni Cali í Kólumbíu. AFP

Kólumbísk yfirvöld hafa leist upp mansalshring þar sem nýfædd börn gengu kaupum og sölum. Fimm hafa verið handteknir, grunaðir um aðild að málinu og eru læknir og tveir hjúkrunarfræðingar í hópnum.

„Þau eru grunuð um að tilheyra glæpahring sem seldi nýfædd börn og framkvæmdi ólöglegar fóstureyðingar,“ segir í tilkynningu frá lögregluyfirvöldum á svæðinu. 

Rannsókn sem hófst árið 2013 beindist fljótlega að heilsugæslu í bænum Cucuta við landamæri Venesúela. Læknir við heilsugæsluna framkvæmdi fóstureyðingar fyrir 450 þúsund til 600 þúsund pesóa (um 24 þúsund til 32 þúsund íslenskar krónur) á aðgerð.

Aðeins konur sem voru gengnar styttra en fjóra mánuði gátu fengið aðgerðirnar samkvæmt lögreglu. Væru konurnar komnar lengra á leið var þeim ráðlagt að fæða börnin svo hægt væri að selja þau fyrir um fimm milljónir pesóa (tæplega 300 þúsund íslenskar krónur) á barn til para sem ekki gátu getið börn. Mansalshringurinn falsaði fæðingarvottorð og segir lögregla að pörin sem keyptu börnin verði einnig sótt til saka. 

Fóstureyðingar hafa verið löglegar í Kólumbíu frá árinu 2006 en aðeins þegar um ræðir fórnarlömb nauðgunar, lífshættulegt ástand móður eða sérlega alvarlega skerðingu fósturs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert