Vél snúið við vegna loðins laumufarþega

Rottur naga sig m.a. gegnum víra og aðrar leiðslur og …
Rottur naga sig m.a. gegnum víra og aðrar leiðslur og geta skapað hættu þar sem viðkvæmur búnaður er. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Flugvél á vegum Air India var snúið við til Nýju Delí eftir tvo tíma á flugi þegar tilkynnt var um að rotta væri mögulega um borð. Samkvæmt flugfélaginu fannst nagdýrið ekki við leit en flugmenn vélarinnar áttu hins vegar engra annarra kosta völ en að snúa við og lenda í Delí, þar sem vélin verður hreinsuð.

Vélin var á leið til Mílanó þegar einhver taldi sig hafa séð kvikindið. Henni var snúið við af öryggisástæðum en raunveruleg hætta getur stafað af rottum, sem naga sig í gegnum víra, leiðslur og annan búnað. Þekkt er að þær komist í vélarnar með bifreiðum sem flytja þau matvæli sem neytt er í flugi.

Þetta mun ekki vera í fyrsta sinn sem nagdýr skapar Air India vandamál en önnur vél félagsins var kyrrsett á flugvelli í Delí í ágúst í fyrra, eftir að starfsmenn kvörtuðu undan rottugangi. Þá hefur félagið átt við tæknilega örðugleika að stríða auk þess sem vandræðaleg tilvik hafa komið upp þar sem starfsfólk félagsins hefur mætt seint í flug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert