Leiðsögumaðurinn lýsir yfir sakleysi

Theo Bronkhorst segist ekki hafa gert neitt rangt.
Theo Bronkhorst segist ekki hafa gert neitt rangt. AFP

Leiðsögumaðurinn sem hefur verið sakaður um að hjálpa til við drápið á ljóninu Cecil sagði í samtali við fjölmiðla í dag að hann hafi ekki gert neitt rangt. Eins og áður hefur komið fram á bandaríski tannlæknirinn Walter Palmer að hafa greitt leiðsögumanninum Theo Bronkhorst fimmtíu þúsund Bandaríkjadali fyrir að lokka ljónið úr  þjóðgarði með beitu svo að Palmer gæti skotið það með boga og ör. Talið er að það hafi tekið Cecil um fjöru­tíu klukku­stund­ir að deyja og hefur málið vakið heimsathygli og mikla reiði.

Cecil var eitt ást­sæl­asta ljón Afr­íku. Hann var þrett­án ára gam­all þegar hann drapst í síðasta mánuði. Cecil hafði m.a. verið rannsakaður af teymi vísindamanna frá Oxford háskóla.

„Mér finnst eins og ég hafi ekki gert neitt rangt,“ sagði Bronkhorst í samtali við NBC. „Þetta hefur verið mjög erfiður tími fyrir mig og mína fjölskyldu. Við höfum verið dregin í eitthvað sem við erum ekki ánægð með.“

Bronkhorst hefur lýst yfir sakleysi sínu en hann var ákærður fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir ólöglega veiði. Hann var látinn laus gegn tryggingu í síðustu viku en mun koma fram fyrir dómara á morgun.

Oppah Muching­uri, um­hverf­is­ráðherra Simba­bve, hef­ur kallað eft­ir því að Pal­mer verði fram­seld­ur til lands­ins og svari fyr­ir ólög­leg at­hæfi sín. Eins og áður hefur komið fram hefur tann­lækn­ir­inn beðist af­sök­un­ar á dráp­inu og vill meina að hann hafi verið blekkt­ur af Bronkhorst sem skipu­lagði veiðiferðina. 

Palmer gætti átt yfir höfði sér tíu ára fangelsi verði hann framseldur. Landeigandinn Honest Ndlovu hefur einnig verið sakaður um að aðstoða Palmer. Hann hefur hinsvegar ekki enn verið formlega ákærður.

Bronkhorst býr í Bulawayo, næst stærstu borg Simbabve og þar rekur hann fyrirtækið Bushman Safari Zimbabwe ásamt eiginkonu sinni og tveimur sonum. Á Facebook síðu fyrirtækisins má sjá rúmlega 170 myndir af veiðimönnum ásamt bráðum sínum.  

Cecil.
Cecil. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert