Rýma íbúðahverfi vegna efnamengunar

Byrjað er að rýma íbúðahverfi í nágrenni sprengjusvæðisins við höfnina í Tianjin, þar sem gífurleg sprenging varð á miðvikudaginn. Yfirvöld hræðast að efnamengun sé á svæðinu, en mjög eitruð natríum blásýra (e. sodium cyanide) fannst á svæðinu.

Opinbera fréttastofan Xinhua segir að íbúar séu nú færðir á brott vegna hættu á efnin muni dreifast víðar um svæðið.

Ráðamenn í borginni höfðu áður sagt að sérfræðingar frá framleiðslufyrirtæki sem gerir natríum blásýru hafi verið sendir inn á svæðið að skoða geymslueiningar sem eru nálægt sprengjusvæðinu.

Eldar hafa logað síðan sprengingin varð á miðvikudaginn, en þeir tóku að magnast á ný í nótt. Reiði og angist íbúa á svæðinu hefur verið talsverð og hafa þeir meðal annars látið reiði sína í ljós á fjölmiðlafundum sem haldnir hafa verið og gagnrýnt skort á gegnsæi.

Segja íbúar að fyrir utan upplýsingar um að loftgæði standist kröfur yfirvalda, þá hafi litlar sem engar upplýsingar borist. Segja þeir að ákveðin mengun sé yfir mörkum og þá séu íbúar mjög efins um þær upplýsingar sem berast frá stjórnvöldum.

Tala látinna er nú komin upp í 85, en 721 hafa verið fluttir á spítala. Af hinum látnu eru 21 slökkviliðsmaður.

Öryggisfulltrúar á vegum Tianjin borgarinnar hafa sagt að mikið sé um hættuleg efni á hafnarsvæðinu, en þar fer í gegn gríðarlega mikill útflutningur frá Kína. Yfir 200 sérfræðingar á sviði lífefnafræði hafa verið kallaðir til borgarinnar, en þeir eru á vegum hersins. Munu þeir aðstoða við aðgerðir og mat á svæðinu á næstunni.

Eldar loga enn á svæðinu og hafa yfirvöld áhyggjur af …
Eldar loga enn á svæðinu og hafa yfirvöld áhyggjur af því að mengun frá hættulegum efnum sem geymd voru á svæðinu kunni að dreifast um næsta nágrenni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert