Stakk þrjá syni sína til bana

Merki lögreglunnar í Los Angeles
Merki lögreglunnar í Los Angeles Vefur lögreglunnar í Los Angeles

Mikil sorg ríkir meðal íbúa í Los Angeles  en þrír bræður fundust stungnir til bana í bifreið föður síns fyrir utan grunnskóla í borginni í gærmorgun. 

Samkvæmt frétt Guardian var faðir þeirra einnig í bílnum en hann var fluttur á sjúkrahús með áverka sem talið er að hann hafi veitt sér eftir að hafa stungið drengina þrjá, á aldrinum átta til tólf ára, til bana. Hnífurinn fannst í bílnum.

Lík drengjanna fundust í bifreiðinni sem stóð fyrir aftan skólann í gærmorgun. Í gærkvöldi safnaðist hópur fólks saman og minntist drengjanna þriggja,  Juan, Alex og Luis.

Ekki er vitað hvers vegna faðir þeirra framdi voðaverkið en drengirnir eru ekki nemendur í skólanum þar sem bílnum hafði verið lagt.

Lögregla kom á vettvang rúmlega sjö í gærmorgun að staðartíma, klukkan 14 að íslenskum tíma, eftir að hafa fengið tilkynningu um árásina.

Verslunarmaður þar skammt frá hafði tekið eftir því að blóðugur maður væri í bifreiðinni og ákvað að ganga að bifreiðinni og kanna málið. Þegar hann kom nær sá hann ungan dreng í farþegasætinu alblóðugan. Hann kannaði lífsmörk en drengurinn var látinni. Sá eini sem var á lífi var faðirinn og að sögn verslunarmannsins voru áverkar á honum þannig að ekkert benti til þess að hann hafi reynt að verjast árás. 

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert