Skrifaði bók um Becky Watts

Becky Watts.
Becky Watts. Skjáskot af SkyNews

Faðir Becky Watts, sem var myrt á heimili sínu í Bretland í febrúar á síðasta ári, hefur skrifað bók þar sem hann lýsir sambandi dóttur hans við manninn sem myrti hana. 

Darren Galsworthy lýsir því einnig í bókinni hversu skelfilegt það hafi verið að komast að sannleikanum í málinu en það var stjúpbróðir Watts sem myrti hana.  Bókin er 304 síður að lengd og kemur út í mars.

Galsworthy segist líta á bókina sem „minnisvarða“ um Watts.

Hin 16 ára gamla Watts var myrt af Nathan Matthews sem kæfði hana í herbergi hennar. Matthews hafði skipulagt að ræna stúlkunni ásamt kærustu sinni Shauna Hoare. Rúmlega 40 áverkar fundust á stúlkunni.

Parið keyrði með lík Watts heim til Matthews þar sem þau sundurlimuðu líkið. Líkamsleifar Watts fundust síðan í garðskúr í nágrenninu tveimur vikum síðar.

„Ég vil að fólk viti hvernig Becky var í raun og veru. Hún var með stórt hjarta, ekki hrædd við neitt og ótrúlega örlát,“ sagði Galsworthy.

Bókin mun kosta 13 pund eða rúmar 2400 íslenskar krónur og er gefin út af bókaútgefandanum HarperNonFiction. Hún kemur út 3. mars, en þá er ár síðan að líkamsleifar Watts fundust.

Matthews, sem er 28 ára gamall, var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hann þarf að sitja inni í að minnsta kosti 33 ár. Kærasta hans, sem er 21 árs, var dæmd í 17 ára fangelsi. Þau hafa bæði áfrýjað dómum sínum.

Frétt Sky News. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert