Móðir barði kennara með tösku

AFP

Spænsk móðir hefur verið dæmd í ársfangelsi fyrir að hafa ráðist á kennara sonar síns og barið hann með handtöskunni sinni. Atvikið átti sér stað fyrir utan skóla drengsins í borginni Barselóna í október 2014. Kallaði móðirin kennarann illum nöfnum og hótaði að drepa hann.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.es að konan hafi barið kennarann ítrekað í höfuðið með töskunni með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á vinstra eyra. Maðurinn bar því ennfremur við að hann hefði orðið fyrir andlegu áfalli vegna árásarinnar en dómarinn í málinu taldi ekki líklegt að árásin hefði haft alvarlegar afleiðingar fyrir hann í þeim efnum.

Konan hlaut sem fyrr segir ársfangelsi og þarf ennfremur að greiða sekt upp á 500 evrur eða sem nemur rúmum 70 þúsund krónum. Þá þarf hún að greiða manninum miskabætur upp á 312 evrur eða sem nemur rúmum 44 þúsund krónum sem og 6 evrur á dag, um 850 krónur, í mánuð. Ekki liggur fyrir hvert tilefni árásarinnar var nákvæmlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert