Loftbrú frá hamförunum

Þúsundir íbúa borgarinnar Fort McMurray sem flúðu til norðurs þegar borgin var rýmd vegna gríðarlegra skógarelda hafa verið fluttir burt með loftbrú. Vonir standa til að öruggt verði að ferðast um einu hraðbrautina sem liggur til suðurs í dag svo hægt verði að koma þúsundum til viðbótar í öruggt skjól. 

Allir 88.000 íbúar Fort McMurray í Alberta-ríki í Kanada fengu skipun um að rýma bæinn á miðvikudag vegna stórbrunans. Flestir flúðu til suðurs en einhverjir fóru norður. og hafa hafst við í vinnubúðum fyrir verkamenn sem starfa við olíuvinnslu á tjörusandinum á svæðinu Flugvélar hafa verið notaðar til þess að koma átt þúsund íbúum sem héldu norður burt en 17.000 manns til viðbótar eiga á hættu að lokast inni vegna eldhafsins.

Eldurinn þekur nú 850 ferkílómetra svæði. Hægt hefur á honum og nú fjarlægist hann Fort McMurray, að því er breska ríkisútvarpið greinir frá. Logarnir hafa þegar eyðilagt 1.600 heimili og aðrar byggingar í borginni.

Rachel Notley, ríkisstjóri Alberta, varar íbúa Fort McMurray að löng bið geti verið í að þeir geti snúið aftur til síns heima.

Kanadísk stjórnvöld vinna nú að því að finna bráðabrigðaheimili fyrir fólk sem hefur glatað heimilum sínum og eignum í eldinum.

Veðurspár gera ráð fyrir svalara veðri og rigningu sem vekur vonir manna um að auðveldara verði að ráða við bálið.

Frétt BBC

Reykur hylur himininn yfir Fort McMurray í Alberta.
Reykur hylur himininn yfir Fort McMurray í Alberta. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert