Talaði við fjölskylduna áður en hún dó

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, tekur þátt í rannsókninni.
Bandaríska alríkislögreglan, FBI, tekur þátt í rannsókninni. AFP

Bandarísk kona sem numin var á brott í Montana talaði við fjölskyldu sína í síma áður en hún lést. Rita Maze, sem var 47 ára að aldri, hringdi í eiginmann sinn eftir að hafa verið numin á brott þegar bíl hennar var stolið við hvíldarstopp við þjóðveginn. Hún talaði við fjölskyldu sína og lögreglu í um 10 mínútur en gat ekki greint frá því hvar hún var stödd að sögn lögreglumanns á svæðinu.

Lík Maze fannst á miðvikudag nærri Spokane-flugvellinum við mörk Washington-ríkis eða rúma 520 kílómetra frá staðnum þar sem henni var rænt. Lögregla á svæðinu segir að Maze hafi hringt úr farsíma í eiginmann sinn á þriðjudag sem svo tilkynnti lögreglu hvarf konu sinnar. Þá hafi hún einnig verið slegin í höfuðið.

Í samtali við miðilinn Great Falls Tribune segir dóttir Maze að móðir sín hafi hljómað móðursjúk og að erfitt hafi verið að skilja mál hennar í síma. „Ég sagði henni að ég elskaði hana,“ sagði dóttirin, „það er það síðasta sem hún heyrði“.

Símasamband rofnaði þegar um 10 mínútur voru liðnar af símtalinu en segir lögreglustjóri að Maze hafi einnig átt samskipti við lögreglu áður en hún lést.

Við rannsókn málsins hafa verið borin kennsl á grunaðan ræningja á eftirlitsmyndböndum. Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, tekur einnig þátt í rannsókninni þar sem bifreiðinni var ekið í gegnum nokkur ríki Bandaríkjanna eftir að henni var stolið með Maze innanborðs.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert