Styður pabba en vill ekki falla með honum

Á tímum virðist Ivanka hafa valið að mynda ákveðna fjarlægð …
Á tímum virðist Ivanka hafa valið að mynda ákveðna fjarlægð milli sín og föður síns, enda óvíst að uppátæki hans séu holl ímynd hennar. AFP

Hún er jafn yfirveguð og íhugul eins og faðir hennar er hávær og bráðvís. Hún heitir Ivanka Trump og sú fjarlægð sem hún hefur myndað milli sín og Trump eldri hefur áunnið henni virðingu demókrata og undran sérfræðinga.

Þegar forsetaefnið vakti fjaðrafok með því að segja að hann myndi ekki endilega sætta sig við niðurstöður forsetakosninganna ef hann myndi tapa, sagði Ivanka, fyrrverandi fyrirsæta og núverandi framkvæmdastjóri: „Hann mun taka útkomunni, á hvorn veginn sem fer.“

Þegar Trump var staðinn að því að hreykja sér af því að geta gert „hvað sem er“ við konur og hélt því svo fram að aðeins hefði verið um að ræða „búningsklefahjal“, sagði dóttir hans ummælin „óviðeigandi og móðgandi“ og viðurkenndi að orð föður hennar gætu „verið óþægileg.“

Ivanka, sem verður brátt 35 ára, er klárlega náin föður sínum. Hann hefur verið duglegur við að lofa hið glæsilega afkvæmi sitt, útskriftarnema frá Wharton við University of Pennsylvanía, og treystir á að hún muni höfða til ungra, kvenkyns kjósenda fyrir sína hönd.

Þegar hún kynnti föður sinn til leiks á flokksþingi repúblikana í júlí, lofaði Ivanka hann fyrir „styrk“ hans, „góðmennsku og samhug.“

En hún virðist líka vita hvenær tími er kominn til að halda sig til hlés.

Það skal engan undra, þar sem hún ólst upp í sviðsljósinu, á tíma þegar hliðarspor Trump voru umfjöllunarefni slúðurblaðanna. Ivanka veit að hún þarf að huga að eigin ímynd, og ímynd fatalínunnar sem ber nafn hennar.

Með yfirvegun sinni og skynsemi hefur Ivanka áunnið sér virðingu …
Með yfirvegun sinni og skynsemi hefur Ivanka áunnið sér virðingu stuðningsmanna Clinton. Hún gæti jafnvel átt framtíðina fyrir sér í pólitík. AFP

Fjarri flokkslínunni

Ivanka hefur verið dugleg við að notfæra sér Twitter og Instagram til að koma sér á framfæri og þykir fyrirmynd kvenna sem samþætta móðurhlutverkið og atvinnu.

Á samskiptamiðlunum er dregin upp mynd af hinni fullkomnu fjölskyldu: Ivönku og eiginmanni hennar Jared Kushner, „stærsta aðdáanda“ hennar, og börnum þeirra þremur; sex mánaða, þriggja og fimm ára.

Hún hefur nýtt sér reynsluna til að standa út úr í kosningabaráttu Trump; t.d. hvatt hann til að gefa loforð sem ríma engan veginn við stefnu Repúblikanaflokksins, s.s. sex vikna fæðingarorlof og skattaívilnanir vegna barnagæslu.

Ivanka segist hins vegar ekki kafa djúpt í pólítíkina, ólíkt eiginmanni sínum og bræðrum. „Ég er ekki heilinn á bakvið kosningabaráttuna, líkt og fólk vill meina og gefa í skyn,“ sagði hún nýlega í viðtali við MSNBC.

En ef hún hefur þokað sér frá föður sínum þegar tilefni hefur verið til, til að standa vörð um ímynd sína, þá hefur það ekki reynst auðvelt. „Viðleitni hennar til að fljóta með föður sínum gegnum þessa sífellt ljótari kosningabaráttu, efld en flekklaus, hefur reynst erfiðari og erfiðari,“ sagði í umfjöllun New Yorker.

Stúlka tekur sjálfsmynd með Ivönku.
Stúlka tekur sjálfsmynd með Ivönku. AFP

Skynsöm kona

Yfirvegun Ivönku hefur áunnið henni virðingu í herbúðum andstæðingsins.

Þegar kom að lokum kappræðna Trump og Clinton 9. október sl. voru forsetaefnin beðin um að finna einn kost við andstæðinginn. Clinton svaraði, án þess að hika: „Börnin hans eru ótrúlega trú og fær.“

Um var að ræða óbeinan virðingarvott við Ivönku, sem hefur verið vinur Chelsea Clinton um langt skeið.

Jafnvel hinn litríki og vinstri sinnaði kvikmyndagerðamaður Michael Moore, sem gaf nýverið út mynd til stuðnings Clinton, virðist kunna að meta hina ungu Trump. Í opnu bréfi sem hann birti á vefsíðu sinni, sagði hann Ivönku afburðasnjalla og einu manneskjuna sem væri þess fær að stöðva „órakennda“ baráttu Trump eldri.

Sam Abrams, stjórnmálafræðingur við Sarah Lawrence og Hoover-stofnunina, segir að „þegar þú hlustar á hana, þá tekur hún ekki þátt í leðjuslagnum líkt og aðrir gera; hún er að reyna að vera faglegri, þroskaðri.“

Og með því að mynda ákveðna fjarlægð milli sín og föður síns hefur Ivanka haldið mörgum möguleikum opnum. Framtíð hennar kann að liggja í sjónvarpi, ef hún vill feta í fótspor föður síns, eða í stjórnmálum, þar sem hún myndi standa fyrir gildi sem faðir hennar gerir ekki, að sögn Abrams.

„Spurningin er: hvað vill hún gera? Getur hún aðskilið sjálfa sig enn frekar frá föður sínum? Getur hún gert hlutina upp á eigin spýtur? Vill hún það?“ spyr hann.

Ef Donald Trump tapar jafn stórt í nóvember og sumar skoðanakannanir virðast benda til, þá þarf Repúblikanaflokkurinn að ráðast í ítarlega naflaskoðun og ákveða fyrir hvað hann stendur, segir Abrams.

„Það liggur ekkert á,“ segir hann. „Hillary er lifandi sönnun þess að þú getur stundað þetta um langt skeið.“

Konurnar í lífi Trump: Ivanka og Melania.
Konurnar í lífi Trump: Ivanka og Melania. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert