Handtekin eftir að hún tilkynnti nauðgun

Nótt í Dubai.
Nótt í Dubai. AFP

Bresk kona hefur verið handtekin í Dubai, sökuð um framhjáhald, en hún hafði áður tilkynnt yfirvöldum að sér hefði verið nauðgað í fríi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

„Þetta er afar truflandi,“ hefur CNN eftir Radha Stirling, stofnanda og framkvæmdastjóra Detained in Dubai. Hún sagði lögreglu oftsinnis ekki gera greinarmun á kynmökum sem ættu sér stað með samþykki beggja aðila, og ofbeldisfullum nauðgunum.

„Fórnarlömb leita til [lögreglu] og vænta réttlætis en eru í staðinn ákærð,“ segir Stirling. Hún segir lögreglu ekki eingöngu neita að viðurkenna fórnarlambsstöðu viðkomandi, heldur sé þeim refsað fyrir að vera beittir ofbeldi.

Talskona utanríkisráðuneytis Bretlands sagðist ekki geta gefið upplýsingar um málið aðrar en þær að bresk kona nyti stuðnings ráðuneytisins og það væri í sambandi við fjölskyldu hennar.

Fjölmiðlafulltrúi breska sendiráðsins í Dubai sagðist hafa sett sig í samband við yfirvöld og óskað eftir því að málið yrði leyst sem fyrst.

Samkvæmt Detained in Dubai var konunni nauðgað af hópi breskra ríkisborgara. Að sögn Stirling var konunni sleppt en vegabréf hennar gert upptækt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert