Flóðaviðvaranir og rafmagnsleysi í Evrópu

Íbúar í Þessalóníku í Grikklandi ganga fram hjá frostlögðum bifreiðum.
Íbúar í Þessalóníku í Grikklandi ganga fram hjá frostlögðum bifreiðum. AFP

Miklar vetrarhörkur eru nú í Evrópu, en mikið óveður sem farið hefur yfir álfuna undanfarin sólarhring hefur valdið rafmagnsleysi hjá á fjórða hundrað þúsund manns í Frakklandi, tré hafa fallið, flóðaviðvaranir hafa víða verið gefnar út og tafir hafa orðið á samgöngum.

Í Bretlandi hafa flóðaviðvaranir verið gefnar út fyrir fjölmörg svæði og voru þúsundir íbúa í byggðum við sjávarsíðuna hvattar til að yfirgefa heimili sín.

Óveðrið, sem hefur hlotið nafnið Egon, hefur einnig valdið töfum og tjóni í Belgíu og Þýskalandi. Á alþjóðaflugvellinum í Frankfurt var flugi 125 véla til að mynda frestað. Þá urðu farþegar í lest á leið milli Brussel og París að eyða nóttinni í niðamyrkri  og kulda um borð í rafmagnslausri lest, sem komst 10 tímum of seint á áfangastað.

Frétt mbl.is: Flóttafólk að frjósa í hel

Kona dó í suðurhluta Frakklands þegar hún varð fyrir tré í garði sínum og í bænum Saranda í Albaníu varð kona úti á leið heim til sín. Þá hafa a.m.k. þrír látist í Þýskalandi í umferðaróhöppum sem orðið hafa vegna ófærðar að því er fréttavefur BBC greinir frá.

Kona gengur í þykkum snjóalögum í bænum Zerqan í Albaníu.
Kona gengur í þykkum snjóalögum í bænum Zerqan í Albaníu. AFP

Vindhraði í franska bænum Dieppe við Ermasundið náði 146 km hraða á klukkustund þegar mest var og í Þýskalandi vöruðu veðurfræðingar við að búast mætti við að allt að 30 sm bættust á snjóalög í dag.

Frosthörkurnar sem hafa verið í Evrópu frá því í lok síðustu viku, hafa nú kostað rúmlega 60 manns lífið og eru flóttamenn og hælisleitendur sem eru strandaglópar í Grikklandi og Serbíu í þeim hópi sem stafar hvað mest hætta af veðrinu.

Þúsundir hælisleitenda í löndum Balkanskaga hafa litlar varnir gegn kuldanum, en margir búa enn í tjöldum sem þeir hafa takmarkaða möguleika á að hita. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir nokkra flóttamenn m.a. hafa farist af völdum kulda og örmögnunar í Búlgaríu.

Fiskimarkaðurinn í Hamborg er nú á floti.
Fiskimarkaðurinn í Hamborg er nú á floti. AFP

Hvatti stofnunin grísk yfirvöld til að flýta flutningi þeirra flóttamanna, sem dvelja í flóttamannabúðum á grísku eyjunum, í betra húsnæði á meginlandinu. En fréttir hafa borist af því að 1.000 hælisleitendur hið minnsta dvelji nú í óupphituðum skýlum á eyjunni Samos.

Börn í hópi hælisleitenda og flóttamanna í búðum sem settar …
Börn í hópi hælisleitenda og flóttamanna í búðum sem settar hafa verið upp á ólympíubúðunum í Aþenu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert