Mexíkóar gæti varúðar í Bandaríkjunum

Landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna við San Ysidro í Kaliforníu eru …
Landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna við San Ysidro í Kaliforníu eru vel varin. Stjórnvöld í Mexíkó hvetja nú alla mexíkóska ríkisborgara til að „fara varlega“ í ljósi þess „nýja veruleika“ sem blasi við í Bandaríkjunum. AFP

Stjórnvöld í Mexíkó hvetja nú alla mexíkóska ríkisborgara til að „fara varlega“ í ljósi þess „nýja veruleika“ sem blasi við í Bandaríkjunum, eftir að mexíkóskri konu sem hafði búið ólöglega í Bandaríkjunum um áratugaskeið var vísað úr landi.

Guadalupe Garcia de Rayos var vísað úr landi og send aftur til Mexíkó í gær, degi eftir að hún hafði verið á skrifstofu innflytjendayfirvalda í Phoenix. Rayos hafði starfað og búið í Banda­ríkj­un­um í 22 ár og urðu börn henn­ar tvö, sem fædd­ust í Bandaríkjunum, og eig­inmaður henn­ar eft­ir í landinu. 

„Mál frú Garcia de Rayos beinir kastljósinu að þeim nýja veruleika sem mexíkóska samfélagið er að upplifa á bandarískri grundu varðandi hertar aðgerðir í innflytjendamálum,“ sagði í yfirlýsingu frá mexíkóska utanríkisráðuneytinu.

„Af þessum sökum hvetjum við alla Mexíkóa til að fara varlega og vera í sambandi við næsta ræðismann til að geta fengið nauðsynlega aðstoð ef svona aðstæður koma upp.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði í síðasta mánuði forsetatilskipun um að múr yrði reistur á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og að aukin áhersla yrði lögð á að vísa ólöglegum innflytjendum úr landi.

Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, hætti við heimsókn í Hvíta húsið eftir að Trump fullyrti ítrekað að Mexíkó yrði gert að greiða fyrir múrinn.

Pena Nieto hét því einnig að stjórnvöld í landinu myndu veita andvirði 50 milljóna dollara til ræðismanna Mexíkó í Bandaríkjunum til að aðstoða ræðismannsskrifstofurnar við að greiða fyrir lögfræðiaðstoð Mexíkóa sem búsettir eru í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert